Jóhannes á sjö síðum af tvö þúsund

Jóhannes Baldursson bíður eftir því að dómþing hefjist í Héraðsdómi …
Jóhannes Baldursson bíður eftir því að dómþing hefjist í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Þórður

„Samtímagögn sýna að skjólstæðingur minn átti enga aðild að þessu máli,“ sagði Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar Baldurssonar í BK-44-málinu. Hann tók saman möppu úr tvö þúsund skjölum sem lögð voru fram af hálfu sérstaks saksóknara og er nafn Jóhannesar á sjö þeirra.

Jóhannes var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis á þeim tíma sem lánaðir voru 3,8 milljarðar króna til eignarhaldsfélagsins BK-44 í nóvember 2007 og þegar uppgjör vegna viðskipta félagsins var gert í júlí 2008. Hann er ákærður vegna aðkomu sinnar að viðskiptunum, en hann var meðal annars yfirmaður þess verðbréfamiðlara sem sá um viðskiptin og þeirrar deildar sem tilkynnti um þau til Kauphallarinnar.

Reimar sagði refsiábyrgð ekki byggða á stöðu Jóhannesar því þótt hann hafi verið titlaður sem framkvæmdastjóri var hann tiltölulega neðarlega í skipulagi Glitnis. „Hann var ekki framkvæmdastjóri í skilningi laga um hlutafélög. Hann hafði enga formlega lagalega stöðu hjá Glitni.“

Hann sagði að jafnvel þótt dómurinn myndi líta svo á að Jóhannes hefði haft lagalega stöðu sem framkvæmdastjóri þá hefði Hæstiréttur dæmt að formleg staða hjá félagi ráði ekki refsiábyrgð. Það sé verkaskiptingin sem skipti máli.

Reimar reifaði nokkur mál máli sínu til stuðnings og sagði að í öllum þeim hafi stjórnarmenn í félögum haft vitneskju um lögbrot, þ.e. ólögmæt vanskil félaganna, en verkaskiptingin hafi skipt máli. „Af þessu leiðir að taka verður til skoðunar, óháð stöðu skjólstæðings míns, hvort hann hafi unnið sér til refsingar. Það verður að afmarka hlutverk hans.“

100.000 samningar árið 2007

Reimar sagði að Jóhannes hefði einfaldlega ekki gegnt skilgreindu hlutverki þegar kom að viðskiptum Bk-44 við Glitni. Það hafi ekki þurft aðkomu hans þegar kom að lánveitingunni, kaupum á valrétti eða tilkynningum til Kauphallarinnar. „Samtímagögn sýna að skjólstæðingur minn átti enga aðild að þessu máli.“

Hann sagði ekkert réttlæta það að sérstakur saksóknari dragi óbeinar ályktanir út frá stöðu Jóhannesar. Um hafi verið að ræða viðskipti eins og önnur sem hafi iðulega farið fram án hans atbeina.

Á árinu 2007 hafi verið gerðir fleiri en eitt hundrað þúsund samningar á sviði Jóhannesar fyrir meira en tuttugu þúsund milljarða króna. Jóhannes hafi því ekki haft mátt til að setja sig inn í einstaka samninga, og það hafi ekki verið farið fram á það við hann.

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert