BK-44 ekki neitt skúffufélag

Birkir Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Birkir Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Þórður

Eignarhaldsfélagið BK-44 var með sex milljarða króna í eigið fé, samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007. Verjandi Birkis Kristinssonar, eiganda BK-44, gerði þetta að umtalsefni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þegar málflutningur í BK-44-málinu fór fram.

Ólafur Eiríksson, verjandi Birkis, gerði það að aðalkröfu að málinu verði vísað frá hvað varðar þátt Birkis. Frávísunarkrafan var gerð vegna þess að rétt­ar­stöðu Birk­is var breytt úr sak­born­ingi í vitni í des­em­ber 2011 og síðan aft­ur í sak­born­ing í júní 2012. Með því að færa rétt­ar­stöðuna úr sak­born­ingi í vitni væri verið að fella málið á hend­ur Birki niður og ekki hægt að taka það aft­ur upp nema ný gögn kæmu fram.

Sama krafa var sett fram í október síðastliðnum en þá hafnaði dómari málsins henni. Sér­stak­ur sak­sókn­ari sagði að nýj­ar upp­lýs­ing­ar hefðu komið fram og þar af leiðandi ný gögn sem leiddu til þess að málið á hend­ur Birki hefði verið tekið upp að nýju. Niðurstaða dóm­ara máls­ins var að lög­regla hefði svig­rúm við mat í þess­um efn­um og því hafi verið heim­ilt að taka rann­sókn máls­ins upp að nýju.

Við aðalmeðferðina í dag benti Ólafur á að þessi nýju gögn væru tvö símtöl og að málflutningur ákæruvaldsins varðandi þessi símtöl veki furðu. „Ég sé ekki hvernig samtöl sem eiga ekki neitt skylt við þau viðskipti sem ákært er fyrir geti talist ný sakargögn í málinu,“ sagði Ólafur og bætti við að fordæmi héraðsdóms væri hættulegt. Saksóknari geti sagst hafa ný gögn án þess að dómari leggi sjálfstætt mat á það.  „Það á ekki að vera hægt að hringla með réttarstöðu manna. [...] Augljóst er að þessi tvö símtöl eru ekki ný sakargögn og því verður að vísa málinu frá.“

Hvað varðar ákæruatriðin sagði Ólafur að ljóst væri að Birkir hefði tekið þátt í þessum viðskiptum með hagnaðarvon að leiðarljósi. Hann hafi ekki átt frumkvæði að þeim og sem starfsmaður Glitnis hafi hann ekki komið að framkvæmdinni að nokkru leyti. Hann hafi fengið heimild regluvarðar og engin athugasemd hafi komið fram hjá honum eða yfirmanni Birkis. Þá hafi hann enga aðkomu haft að uppgjöri viðskiptanna en eingöngu vitað að frá málinu hafi verið gengið í samræmi við það samkomulag sem gert var í upphafi viðskiptanna.

Ef gert hafi verið mannleg mistök við framkvæmdina þá snerti hún Birki ekki á nokkurn hátt enda hafi hann ekkert mátt koma að henni. Þá séu mannleg mistök ekki refsiverð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert