Engin lánabeiðni var útbúin, engar tryggingar lágu fyrir, ekki var samið um lánakjör, ekkert mat gert á áhættu eða endurgreiðslugetu og tilgangur lánsins lá ekki fyrir. Glitnir gat aðeins tapað. Þetta sagði sérstakur saksóknari vegna lánveitingar til BK-44 og uppgjörs á viðskiptum við sama félag.
Aðalmeðferð í BK-44 málinu hélt áfram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og hófst þá munnlegur málflutningur. Eins og komið hefur fram eru fjórir fyrrverandi starfsmenn Glitnis ákærðir fyrir 3,8 milljarða króna lánveitingu til eignarhaldsfélagsins BK-44 í nóvember 2007 og fyrir uppgjörs vegna viðskipta félagsins með bréf í Glitni í júlí 2008.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði ljóst að ekki aðeins hafi Glitnir banki borið alla áhættu vegna viðskiptanna heldur bar hann allan kostnað við lánveitinguna til BK-44. Þannig að ekki aðeins hafi BK-44 fengið fulla fjármögnun við kaup á 150 milljón hlutum í Glitni heldur greiddi bankinn lántökukostnað og gríðarlegan vaxtakostnað sem af láninu hlaust. Og ofan í allt greiddi Glitnir 50 milljónir króna í arð vegna eignar BK-44 í bankanum og 35 milljónir króna í hagnað þegar viðskiptin voru gerð upp. Tap bankans nam um tveimur milljörðum króna.
BK-44 var í eigu Birkis Kristinssonar sem á þessum tíma starfaði á einkabankasviði Glitnis banka. Hann er ákærður í málinu ásamt þeim Elmari Svavarssyni, sem var verðbréfamiðlari, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, sem var framkvæmdastjóri á fyrirtækjasviði, og Jóhannesi Baldurssyni, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta. Þeim er gefið að sök umboðssvik og markaðsmisnotkun auk þess sem Birkir er sakaður um brot á lögum um ársreikninga.
Sérstakur saksóknari fer fram á að Birki, Elmari og Jóhannesi verði refsað með ekki vægari refsingu en fimm ára fangelsi og að Magnúsi verði ekki gerð vægari refsing en fjögurra ára fangelsi.
Í málflutningsræðu sinni sagði hinn sérstaki saksóknari að í nóvember 2007 gerður hafi verið samningur við Birki um skaðleysi ef hann lánaði félag sitt til að geyma 150 milljón hluti í Glitni sem fjárfestingafélagið Gnúpur losaði stuttu áður. Samningurinn hafi kveðið á um að ekkert endurgjald kæmi frá Birki eða BK-44 og hann gæti ekki orðið fyrir tapi.
Bæði fjármálaeftirlitið og slitastjórn Glitnis kærðu viðskiptin til sérstaks saksóknara. Fjármálaeftirlitið kærði málið 10. nóvember 2011 og slitastjórnin 1. október 2012. Rannsókn sérstaks saksóknara hófst í lok nóvember 2011 með húsleitum og öflun rafrænna og skjallega gagna.
Málið var höfðað og hverfist það um kaup BK-44 á 150 milljón hlutum í Glitni banka, lánveitingu Glitnis til BK-44 vegna kaupanna, munnlegan samning um skaðleysi og uppgjör sem ekki aðeins tryggði BK-44 skaðleysi heldur einnig hagnað, þrátt fyrir mikla lækkun á virði bréfanna í bankanum og vaxtasöfnun lánsins.
Saksóknari sagði ekkert hafa verið sett á blað um þennan samning, enginn lánastjóri hafi komið að málinu, engin lánabeiðni útgefin, ekki hafi verið rætt um viðskiptin í áhættunefnd Glitnis eða lánanefndum, ekki gengið frá tryggingum, gjaldfærni BK-44 hafi ekki verið könnuð, ekki hafi verið farið eftir undirskriftarreglum, samningur hafi ekki verið skjalfestur og ekkert lá fyrir um sölurétt. Þrátt fyrir það nam hluturinn um einu prósenti af hlutum í bankanum og viðskiptin voru tilkynnt til Kauphallarinnar.
Bréfin voru keypt á genginu 25,2, sem var markaðsvirði, en seld á á 31,82 á þeim tíma sem markaðsvirði var 14,95.
Saksóknari sagði einnig að ákærðu hefðu tekið verulega áhættu fyrir hönd bankans, þrátt fyrir að hafa ekki heimild til þess. Þeir hafi hins vegar verið í aðstöðu til framkvæma viðskiptin án þess að þau hafi verið samþykkt af þar til bærum aðilum innan bankans. Þeir hafi farið langt út fyrir heimildir sínar og skapað Glitni verulega hættu. Um hafi verið að ræða verulega háa lánsfjárhæð til félags sem ekki var með rekstur, í eigu starfsmanns bankans og án fullnægjandi trygginga.
Þá sagði hann að engin gögn hafi fundist um viðskiptin í fundargerðum lánanefnda eða áhættunefnd bankans, hvorki símtöl né tölvubréf. Þá kannist hvorki þáverandi forstjóri bankans eða framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs við málið. Ljóst sé hins vegar af þeim gögnum sem liggja fyrir að þessir fjórir starfsmenn hafi tekið ákvörðun um viðskiptin og fylgst með framgangi þeirra.
Hann sagði jafnframt staðfestingu á ólögmæti viðskiptanna þá staðreynd að Birkir greiddi slitastjórn Glitnis til baka arðinn og hagnaðinn af þeim, eftir að þess hafi verið krafist af honum.
Ólafur sagði ljóst að þarna hafi verið um málamyndaviðskipti að ræða á þeim tíma sem Glitnir var að reyna losa sig við eigin bréf. Viðskiptin hafi verið í hæsta máta óeðlileg og engar forsendur til þeirra af hálfu bankans, enda hlaut hann að tapa á þeim.
Aðalmeðferðin heldur áfram.