Hagar sér bara eins og miðlari

Elmar Svavarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Elmar Svavarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Þórður

„Hann hagar sér bara eins og verðbréfamiðlari,“ sagði Karl Georg Sigurbjörnsson, verjandi Elmars Svavarssonar í BK-44-málinu. Hann sagði Elmar ekki í hafa verið í aðstöðu til að taka ákvarðanir í umræddu máli en tekið við fyrirmælum yfirmanna sinna og framkvæmt það sem honum var gert að gera. 

Elmar er ásamt þremur öðrum ákærður í BK-44-málinu svonefnda en aðalmeðferð í því fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Elmar er ákærður fyrir að hafa veitt 3,8 milljarða króna lán til BK-77 í nóvember 2007 sem notað var til að kaupa 150 milljón hluti í bankanum. BK-77 seldi hlutina á árinu 2008 þegar gert var upp við félagið nam tap Glitnis tveimur milljörðum króna.

Óumdeilt er að Elmar kom á umræddum viðskiptum og var viðloðandi þegar málið var gert upp. Karl Georg, verjandi hans, sagði hins vegar að Elmar hefði eingöngu starfað innan starfsviðs síns. Hann hefði enga heimild til ákvarðanatöku og aðeins miðlað. „Að maðurinn á gólfinu hafi verið í samkurli með framkvæmdastjórum, til að halda uppi verði, er fráleitt,“ sagði Karl Georg.

Hann sagði jafnframt að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að Elmar hafi gert nokkuð saknæmt, enda hafi hann ekki verið í aðstöðu til þess. Hann hafi ekki komið að lánamálum, ekki verið í yfirmannsstöðu og ekki verið í stöðu til að efast um fyrirmæli frá yfirboðurum sínum og krefjast rannsóknar á þeim.

Karl Georg sagði Elmar eingöngu hafa sinnt sínu starfi, hann hafi komið á viðskiptum og þegar því var lokið fóru viðskiptin annaði í bankanum. „Hann er starfsmaður á gólfi. Hverjir aðrir eru ákærðir. Það eru framkvæmdastjórar, tveir, og mjög fjársterkur einstaklingur sem einnig er starfsmaður bankans.“

Ítrekað benti Karl Georg á að Elmar hefði gegnt afmörkuðu starfi innan bankans og ekki hafði rúmast neitt af því sem greint er frá í ákæru. „Hann hafði aldrei umboð eða gat stuðlað að því að aðrir misnotuðu umboð sitt.  [...] Hann hafði ekkert ákvörðunarvald eða boðvald. [...] Það er erfitt að sjá hvernig hann getur brotið af sér.“

Karl Georg sagði mögulegt að Elmar hafi gert mistök þegar hann fylgdi því ekki eftir að valréttir væru skráðir í kerfi bankans. En þegar hann uppgötvaði þau mistök hafi hann kallað til regluvörð. „Ef maður gerir eitthvað saknæmt þá kallar hann ekki til regluvörð bankans.“

Mistökin voru gerð upp þannig að BK-44 var gert skaðlaust og tapaði Glitnir tveimur milljörðum króna fyrir vikið. „En það er ekkert í hans framferði sem bendir til þess að hann hafi gert nokkuð saknæmt,“ sagði Karl Georg. Hann sagði Elmar hafa gert allt til þess að uppgjörið væri rekjanlegt og voru viðskiptin skráð á hans miðlunarbók.

Sérstakur saksóknari gerði kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmi Elmar í fimm ára fangelsi fyrir sinn þátt í málinu. Þetta sagði Karl Georg fráleitt. Staða Elmars hafi einfaldlega verið þannig að hann gat ekki framið þau brot sem hann er sakaður um.

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert