Enn er unnið að rannsókn á nauðgun á ungri konu fyrr í mánuðinum en konan bankaði upp á í húsi við Langholtsveg undir morgun á laugardegi. Enginn liggur undir grun, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar.
Ung kona leitaði á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi kl. 5 að morgni þann 17. maí sl, en grunur leikur á að henni hafi verið nauðgað. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti þann sama dag eftir vitnum í tengslum við rannsóknina.
Einhverjar ábendingar bárust í kjölfarið og vörpuðu þær skýrara ljósi á atvik en ekki er hægt að greina frekar frá rannsókn málsins að svo stöddu, að sögn Friðriks Smára.
Rannsókn á hópnauðgun miðar vel og er rannsóknin á lokastigi hjá rannsóknardeild lögreglunnar. Í kjölfarið verður málið sent til embættis ríkissaksóknara.
Fimm piltar á aldrinum 17 til 19 ára eru grunaðir um að hafa nauðgað sextán ára stúlku aðfaranótt sunnudagsins 4. maí s.l. Piltarnir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna, en segjast hafa talið að hún væri því samþykk. Piltunum ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás honum tengda.
Myndbandsupptaka, sem tekin var á síma eins piltanna fimm sem eru kærðir, styður framburð stúlkunnar, að mati lögreglu. Stúlkan lagði sjálf fram myndbandsupptökuna þegar hún kærði hópnauðgunina.
Tugir yfirheyrðir vegna hópnauðgunar
Rannsókn á máli þar sem karlmanni á fertugsaldri var haldið fögnum á heimili sínu í Kópavogi þann 24. febrúar sl. er langt komin og er að ljúka að sögn Friðriks Smára.
Maðurinn var barinn og pyntaður og voru fimm handteknir í kjölfarið, fjórir karlmenn og ein kona. Tveir karlmenn voru útskurðaðir í gæsluvarðhald en ekki þótti ástæða til að framlengja gæsluvarðhald yfir þeim. Fólkið hefur allt komið við sögu lögreglu áður.