Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs og oddviti á lista Sjálfstæðismanna, segir að niðurstaðan þegar rúmlega 61% atkvæða eru talin, sé í samræmi við þá tilfinningu sem hann hafði. Fimmti maður listans er inni og fjölgar bæjarfulltrúum flokksins um einn. Samfylkingin tapar aftur á móti einum fulltrúa og er nú með tvo.
„Þetta er fyrsta sinn sem ég legg störf mín sem bæjarstjóra í dóm kjósenda. Ég held að það megi segja að kjósendur í Kópavogi sé þokkalega ánægðir með það,“ segir Ármann í samtali við mbl.is. Hann segir ekkert í þessu koma sér á óvart og að hann hafi reiknað með fimmta manninum inn. „Þannig að ég er mjög, mjög glaður,“ segir Ármann.