Verðlaunin „Framúrskarandi ungir Íslendingar“ voru veitt við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík í dag þar sem Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og ritstjóri Stjörnufræðivefsins, var verðlaunaður auk þess sem tíu aðrir fengu viðurkenningu. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin en hann er verndari verkefnisins hér á landi.
Árlega verðlaunar JCI á Íslandi unga Íslendinga sem þykja skara fram úr á sínu sviði. Verðlaunin eru hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni og í þeim á að felast viðurkenning til þeirra sem koma til með að hafa áhrif í framtíðinni.
„Þrátt fyrir að Sævar sé afburða vísindamaður hefur hann einnig nýtt hæfileika sína til þess að gefa af sér til samfélagsins og það er í samræmi við JCI gildin sem hreyfingin lifir eftir,“ segir Hörpu Grétarsdóttur, verkefnastjóra verkefnisins í ár.
Í áliti dómnefndarinnar segir að Sævar hafi hafið hafið vísindakennslu upp á hærra plan með því að vekja áhuga barna á vísindum og tækni á frumlegan hátt. „Hann safnaði öllu fé sem þurfti til að gera Galíleósjónaukann að veruleika og heimsótti í kringum 150 skóla til að afhenda verkefnið persónulega,“ segir í álitinu en Galíleósjónaukinn er fyrst og fremst kennslutæki, ætlað til að efla áhuga barna og unglinga á vísindum.
Um tvö hundruð tilnefningar bárust og segir Harpa að dómnefndinni hafi reynst erfitt að gera upp á milli þeirra tíu efstu sem hlutu viðurkenningu, en þeir eru: Alexandra Chernyshova, óperusöngkona, Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttakona, Anna Pála Sverrisdóttir, lögmaður og formaður Samtakanna 78, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landsverndar, Hans Tómas Björnsson, barnalæknir og aðstoðarprófessor við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum, Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, María Rut Kristinsdóttir, fyrrverandi formaður Stúdentaráðs, Sigríður María Egilsdóttir, Ræðumaður Íslands og Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla.
Dómnefndina í ár skipa Sigurður Sigurðsson landsforseti JCI, Dr. Ari Kristinn Jónsson rektor HR, Katrín Jakobsdóttir alþingiskona og Vilborg Arna Gissurardóttir ævintýrakona og pólfari.