Forgangsraða í þágu fanga

Páll Winkel.
Páll Winkel.

Fangelsismálastjóri getur ekki tjáð sig um tilraunir fanga til sjálfsvíga að undanförnu en segir þrjá sálfræðinga starfandi hjá Fangelsismálastofnun og þrátt fyrir biðlista eftir þjónustu þeirra sé neyðarþjónustu ávallt sinnt. Hann segir fanga þurfa að búa við skerta þjónustu rétt eins aðra landsmenn.

Greint var frá því á mbl.is í gær að tveir refsifang­ar á Litla-Hrauni hefðu reynt að stytta sér ald­ur á undanförnum mánuði og fleiri lýst því yfir að þeir hefðu sjálfs­vígs­hugs­an­ir. Einnig að Guðmund­ur Ingi Þórodds­son, formaður stjórn­ar Af­stöðu, fé­lags fanga, gagnrýni að fang­ar fái ekki þá aðstoð í fang­els­inu sem þeir nauðsyn­lega þurfi. Að sögn Guðmundar eru tveir sál­fræðing­ar í vinnu hjá Fang­els­is­mála­stofn­un, ann­ar þeirra í barneign­ar­leyfi og hinn í sér­verk­efn­um á skrif­stofu stofn­un­ar­inn­ar.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir þetta ekki alls kostar rétt. „Það er enginn sálfræðingur í sérverkefnum hjá stofnuninni. Það eru þrír sálfræðingar starfandi og þótt það sé rétt að biðlisti er eftir þjónustu sálfræðinga er neyðarþjónustu ávallt sinnt.“

Einnig nefnir Páll að hjá Fangelsismálastofnun eins og öðrum ríkisstofnunum sé gerð krafa um aðhald. „Það er því skert þjónusta við fanga eins og aðra íbúa landsins. Verkefni sálfræðingana eru fjölbreytt og eitt af mikilvægari verkefnum þeirra er að gera áhættumat áður en ákvörðun er tekin um hvort hleypa eigi mönnum út á reynslulausn eða í dagsleyfi og svo framvegis. Það er mikið að gera hjá þeim en við forgangsröðum eins og við mögulega getum, í þágu fanga.“

Fangelsið á Litla-Hrauni.
Fangelsið á Litla-Hrauni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert