Jóhanna fordæmir laxveiðiferðina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson ætla að renna fyrir …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson ætla að renna fyrir lax í Norðurá. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hafa þessir menn enga siðferðiskennd?“ spyr Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, á opinberri Facebook síðu sinni vegna frétta um að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi þegið boð um að opna veiðitímabilið í Norðurá í Borgarfirði, einni dýrustu laxveiðiá landsins.

Einn dagur í Norðurá kostaði tæpar 100 þúsund krónur á stöngina á hápunkti síðasta veiðitímabils, en á vef Norðurár er ekki komið inn verð fyrir stöngina á svæði I í sumar. 

Á veiðivefnum Vötn og veiði var í gær greint frá því að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafi þegið boð um að opna ána á morgun, fimmtudag.

Andstætt siðareglum að þiggja boðsferð af einkaaðilum

Haft var eftir sölustjóra Norðurár, Einari Sigfússyni að það væri til þess gert að „breyta til batnaðar ímyndarvanda sem laxveiði á Íslandi hefði átt í eftir hrun.“ Einar sagði að laxveiði hefði verið komin með ímynd bruðls og óhófs eftir hrun, sem væri miður. Hann vildi stuðla að því að breyta þeirri ímynd og liður í því væri að bjóða forystumönnum þjóðarinnar í laxveiði, ókeypis.

Jóhanna Sigurðardóttir segir þetta með ólikindum. „Getur verið að laxveiðispillingartíminn sé að renna upp aftur? Hafa þessir menn enga siðferðiskennd? Og ég spyr, hafa þeir numið úr gildi siðareglur fyrir ríkisstjórn Íslands sem sett var af ríkisstjórn minni, þar sem svona sukk var bannað?“

Í e lið 3. gr. siðareglna fyrir ráðherra sem samþykktar voru í mars 2011 segir að ráðherra þiggi að jafnaði ekki boðsferðir af einkaaðilum, nema opinberar embættisskyldur séu hluti af dagskrá ferðarinnar. Siðareglurnar er enn að finna á heimasíðu stjórnarráðsins og má því ætla að þær hafi ekki verið numdar úr gildi.

Sjá einnig: Ráðherrar að bæta ímynd laxveiði

Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert