Rannsókn á hópnauðgun í Breiðholti er að ljúka hjá lögreglunni og verður málið sent fljótlega til ríkissaksóknara, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar.
Fimm piltar á aldrinum 17 til 19 ára eru grunaðir um að hafa nauðgað sextán ára stúlku aðfaranótt sunnudagsins 4. maí s.l. Piltarnir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna, en segjast hafa talið að hún væri því samþykk. Piltunum ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás honum tengda.
Myndbandsupptaka, sem tekin var á síma eins piltanna fimm sem eru kærðir, styður framburð stúlkunnar, að mati lögreglu.
Rannsókn á árás á Spot langt komin
Ekki var óskað eftir framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir manni sem er grunaður um að hafa ráðist á annan mann á skemmtistaðnum Spot í síðustu viku. Gæsluvarðhald yfir honum rann út síðdegis í gær en að sögn Friðriks Smára miðar rannsókn vel og er hún langt komin. Auglýst var eftir vitnum að árásinni og hafa nokkur gefið sig fram.
Árásarmaðurinn er grunaður um að hafa slegið, skallað og hrint öðrum manni sem hlaut lífshættulega áverka á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi aðfararnótt uppstigningadags vegna manns sem lá meðvitundarlaus á gólfi staðarins.
Á röntgenmyndum mátti sjá blæðingu inn á heila á tveimur stöðum hjá manninum og einnig höfuðkúpubrot. Var ástand mannsins talið alvarlegt og var hann í framhaldinu fluttur á gjörgæsludeild til frekari aðhlynningar.
Árásarmál enn í rannsókn
Enn er unnið að rannsókn á nauðgun á ungri konu en hún bankaði upp á í húsi við Langholtsveg undir morgun á laugardegi. Enginn liggur undir grun, að sögn Friðriks Smára en rannsókn er ekki lokið og segist hann ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu.
Ung kona leitaði á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi kl. 5 að morgni þann 17. maí sl, en grunur leikur á að henni hafi verið nauðgað. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu auglýsti þann sama dag eftir vitnum í tengslum við rannsóknina.
Líkt og kom fram á mbl.is í gær er einn maður í gæsluvarðhaldi vegna árásar á mann í Selbrekku í Kópavogi. Friðrik Smári segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi og getur ekki upplýst frekar um hana að svo stöddu.