Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar og eiginmaður hennar Daníel prins heimsækja Ísland í boði forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, dagana 18. og 19. júní næstkomandi. Með þeim í för verða embættismenn sænsku hirðarinnar og utanríkisþjónustunnar.
Heimsóknin hefst með komu Viktoríu krónprinsessu og Daníels prins til Bessastaða að morgni miðvikudagsins 18. júní. Að lokinni samverustund með forsetahjónunum munu gestirnir hitta íslenska og sænska blaðamenn.
Frá Bessastöðum verður haldið í Hörpu þar sem fram fer kynning á íslensku tónlistarlífi og menningu auk þess sem gestirnir skoða salarkynni, segir í fréttatilkynningu.
Í hádeginu bjóða Sænsk-íslenska viðskiptaráðið og sænska sendiráðið til hádegisverðar og kynningarfundar í Norræna húsinu. Að því loknu verður farið í Hellisheiðarvirkjun þar sem forystumenn í orkumálum og þróunarstarfi munu m.a. fjalla um starf Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og verkefni í Afríku. Þaðan liggur leiðin í Össur þar sem fram fer kynning á vörum og starfsemi fyrirtækisins.
Í lok fyrri dags heimsóknarinnar bjóða forsetahjónin til kvöldverðar á Bessastöðum til heiðurs hinum tignu gestum.
Að morgni fimmtudagsins 19. júní verður haldið til Húsavíkur, farið í hvalaskoðun, heilsað upp á íbúa bæjarins og snæddur hádegisverður í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Að lokinni skoðunarferð um Mývatn og Námaskarð verður staðnæmst við Goðafoss áður en komið verður til Akureyrar. Í Háskólanum á Akureyri taka gestirnir þátt í málþingi um samvinnu á norðurslóðum þar sem fræðimenn og stjórnendur háskólans kynna margvíslegar rannsóknir á því sviði.
Á undanförnum árum hafa ríkisarfar Noregs og Danmerkur heimsótt Ísland í boði forseta og með heimsókn Viktoríu krónprinsessu nú munu allir ríkisarfar Norðurlanda hafa sótt Ísland heim.