Steinþór dæmdur í fangelsi

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans voru sýknuð í svonefndu Imon-máli. Steinþór Gunnarsson, fv. forstöðumaður verðbréfamiðlunar, var hins vegar dæmdur í níu mánaða fangelsi, sex eru skilorðsbundnir.

Imon-málið sem svo er kallað teng­ist sölu Lands­bank­ans á eig­in bréf­um til tveggja eign­ar­halds­fé­laga í lok sept­em­ber og byrj­un októ­ber árið 2008. Fé­lög­in tvö voru Imon ehf. og Aza­lea Resources Ltd.

Til stóð að Lands­bank­inn fjár­magnaði kaup­in og hefðu þrett­án millj­arðar króna verið lánaðir til fé­lag­anna ef allt hefði gengið eft­ir. Hins veg­ar varð „aðeins“ af einni lán­veit­ingu af þrem­ur, upp á fimm millj­arða króna til Imon. Engu að síður voru hlutabréf færð inn á félögin í öllum tilvikum og Kaup­höll­inni til­kynnt um viðskipt­in. Hélt sak­sókn­ari því fram að það hefði verið gert til að blekkja markaðinn. Fjár­fest­ar hafi komið inn í bank­ann sem ekki voru til­bún­ir að leggja fram nein­ar trygg­ing­ar, engu að síður hafi eigna­laus fé­lög þeirra fengið hluta­bréf fyr­ir millj­arða króna.

Ákæruvaldið fór fram á ekki minna en fimm ára fangelsi yfir Sigurjóni og ekki minna en fjögurra ára fangelsi yfir Elínu og Steinþóri.

Á síðasta degi aðalmeðferðar í málinu sagði Sigurjón sorg­legt að sama hvað lagt hefði verið fram við rann­sókn máls­ins til að reyna skýra málin fyr­ir rann­sak­end­um þá hefði það engu skipt. „Það er ekki hlustað. [...] Og ekki er gætt hóf­semi í einu né neinu. Gera menn sér grein fyr­ir því að búið er að fara yfir 520 þúsund tölvu­pósta, sjö þúsund sím­töl. Það er búið að fara í gegn­um allt. Og ekk­ert finnst því það er ekki neitt. Við vor­um að vinna með hags­muni bank­ans í fyr­ir­rúmi og ekk­ert annað. Það stenst ekki að maður hafi alltaf verið að reyna gera eitt­hvað óheiðarlegt. Það er ekki þannig.“

Hann sagði ákæru­valdið ekki hafa reynt að leggja fram nein gögn máli sínu til stuðnings held­ur hefðu ein­göngu verið bún­ar til sög­ur og dylgjað.

Eins og gengur og gerist í málum sem þessum verður þessi máli að öllum líkindum áfrýjað til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka