Sýknað í Aurum-málinu

Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson voru í dag sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í Aurum-málinu svonefnda. 

Ákæra sér­staks sak­sókn­ara snýst um fé­lagið Aur­um Hold­ings Limited sem áður hét Goldsmiths, Mapp­in & Wepp og WOS. Í málinu voru ákærðir þeir Lárus, Jón Ásgeir, sem var einn aðaleigandi bankans, Magnús Arnar og Bjarni fyrir umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum vegna sex milljarða króna lánveitingar Glitnis banka til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aurum Holdings Limited.

Sérstakur saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi og fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arnari og Bjarna. Magnús Arnar gegndi starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis og Bjarni var viðskiptastjóri sama banka.

Við upphaf aðalmeðferðar hélt Jón Ásgeir stutta ræðu. Hann sagðist hafa haft stöðu grunaðs manns í tólf ár hjá embætti sér­staks sak­sókn­ara og for­vera þess embætt­is. Hann benti á að málið sé til lokameðferðar hjá Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu þar sem farið sé yfir þá meðferð sem hann hafi orðið fyr­ir. „Það er með ólík­ind­um hvernig komið hef­ur verið fram við mig.“

Fastlega má búast við að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Hér má lesa fréttir mbl.is frá aðalmeðferð málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert