Þrír mánuðir en ekki 31 ár í fangelsi

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Þórður

Sérstakur saksóknari krafðist þess að sjö sakborningar í Aurum-málinu og Imon-málinu yrðu dæmdir samtals í 31 ár í fangelsi. Verði niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur staðfest í Hæstarétti skilaði þessi krafa níu mánaða fangelsi, þar sem sex mánuðir eru bundnir skilorði.

Líklegt verður að telja að korkurinn sé enn í kampavínsflöskum embættis sérstaks saksóknara eftir dómsuppkvaðningu í tveimur málum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Eins og ítrekað hefur komið fram í dag voru þau Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Arnar Arngrímsson, Bjarni Jóhannesson, Sigurjón Þ. Árnason og Sigríður Elín Sigfúsdóttir öll sýknuð í héraðsdómi í dag.

Einn maður af sjö var hins vegar sakfelldur fyrir sinn þátt í Imon-málinu, Steinþór Gunnarsson, sem var forstöðumaður verðbréfamiðlun­ar Landsbankans. Hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi, en sex mánuðir af refsingunni eru bundnir skilorði.

Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðuna er hún þriggja mánaða fangelsi - þar sem sex eru bundnir skilorði - en ekki 31 árs fangelsi, eins og sérstakur saksóknari krafðist. 

73 milljónir úr ríkissjóði

Steinþór er einnig sá eini sem þarf að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna vegna lögsóknar sérstaks saksóknara. Þarf hann að greiða helming málsvarnarlauna tveggja lögmanna, samtals 2.196.250 krónur.

Allur annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Vegna Imon-málsins eru það 29.025.414 krónur sem eru málsvarnarlaun Sigurðar G. Guðjónssonar, Helgu Melkorku Óttarsdóttur og helmingur málsvarnarlauna Lárentsínusar Kristjánssonar og Brynjars Níelssonar.

Vegna Aurum-málsins greiðast úr ríkissjóði 44.006.269 krónur sem eru málsvarnarlaun Óttars Pálssonar, Gests Jónssonar, Helga Birgissonar og Bjarna Eiríkssonar auk útlagðs kostnaðar.

Samtals gera þetta 73.031.683 krónur úr ríkissjóði. Eru þá að sjálfsögðu ekki taldar með ófáar vinnustundir starfsmanna sérstaks saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert