Björgunarfélagið á Höfn og Björgunarsveitin Kári í Öræfum voru kölluð út á sjötta tímanum í dag þegar beiðni barst um aðstoð á Hvannadalshnjúk vegna göngumanns er veiktist á leið sinni niður af tindinum. Var hann þá staddur, ásamt gönguhópi, í um 1.800 metra hæð.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð á staðinn, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Björgunarmenn fóru á Hnjúkinn á sleðum auk þess sem fjórir göngumenn fóru frá Sandfelli. Þyrlan kom á slysstað rétt fyrir klukkan 19 og flutti manninn á sjúkrahús í Reykjavík.
Ekki er vitað um ástand hans en læknir var í gönguhópnum og sinnti manninum þar til aðstoð barst.
Gott veður var á Hvannadalshnjúki í dag, heiðskírt efst en skýjað neðar.
Að sögn Landhelgisgæslunnar er áætlað að þyrlan lendi við Landspítalann í Fossvogi kl. 20:20 með göngumanninn, en LHG segir að hann hafi örmagnast á leið sinni niður af Hvannadalshnjúk.