Tíu ára gekk á Hvannadalshnjúk

Tómas er talinn vera yngsti göngumaðurinn til þess að ganga …
Tómas er talinn vera yngsti göngumaðurinn til þess að ganga á topp Hvannadalshnjúks Ljósmynd/Sigurður Ögmundsson

Björgunarsveitarmenn og landvörður í Skaftafelli gengu fram á ungan göngumann á Sandfelli í gær. Sá heitir Tómas Andri Ólafsson og er tíu ára gamall, en hann var á leið niður af toppi Hvannadalshnjúks í hópi Íslenskra fjallaleiðsögumanna samkvæmt frétt á Facebook síðu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Guðmundur Ögmundsson landvörður taldi að Tómas væri að öllum líkindum yngsti göngumaðurinn til þess að ganga á Hnjúkinn til þessa, en hann verður ellefu ára eftir hálfan annan mánuð. Fyrir var vitað um ellefu ára gamlan göngumann sem gekk ásamt hópi Öræfinga á Hnjúkinn á áttunda áratugnum og jafnframt gekk ríflega áttræður maður upp árið 2010, en hann er talinn vera sá elsti.

Gangan ekki auðveld

Guðmundur ítrekaði að ganga á fjallið væri ekki auðveld þrátt fyrir afrek hins unga Tómasar og gætu aðstæður verið mjög mismunandi milli daga. Einnig hafi menn örmagnast við göngu á tindinn, en það gerðist í gær þegar þyrla Landhelgisgæslunnar þurfti að flytja göngumann á sjúkrahús í Reykjavík.

Gangan tók um fjórtán tíma hjá hópi Tómasar samkvæmt fréttinni, en aðstæður voru erfiðar vegna hita sem mýkti snjó á svæðinu til muna. Göngufólk þurfti því að stíga hnédjúpt í snjó á leið niður af fjallinu.

Guðmundur sagði helgina hafa gengið vel í þjóðgarðinum og mikinn fjölda ferðamanna hafa verið á svæðinu, bæði í gönguferðum sem og rólegri fjölskylduútilegum. Umferð ferðamanna um svæðið hefur aukist um fjórðung það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra.

Frétt á Facebook síðu Vatnajökulsþjóðgarðs

Frétt mbl.is: Veikur maður sóttur

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti mann sem örmagnaðist við göngu á Hvannadalshnjúk …
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti mann sem örmagnaðist við göngu á Hvannadalshnjúk í gær mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert