Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hópnauðgun í Breiðholti er langt á veg komin og mun henni ljúka í þessum mánuði. Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar, segir í samtali við mbl.is að stefnt sé að því að ljúka henni í lok júní.
Málið fer þá til ákæruvaldsins sem tekur ákvörðun um framhaldið, þ.e. hvort ákæra verði gefin út eður ei.
Fimm piltar á aldrinum 17 til 19 ára eru grunaðir um að hafa nauðgað sextán ára stúlku aðfaranótt sunnudagsins 4. maí. Þeir voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. maí.
Piltarnir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna, en segjast hafa talið að hún væri því samþykk. Piltunum ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás honum tengda.
Myndbandsupptaka, sem tekin var á síma eins piltanna fimm sem eru kærðir, styður framburð stúlkunnar, að mati lögreglu.
Að sögn Gunnars hefur lögreglan tekið skýrslu af fjölmörgum í tengslum við rannsókn málsins.