Sigurður Ingi Þórðarsson, betur þekktur sem Siggi hakkari, fer fyrir dóm í héraðsdómi Reykjaness á fimmtudag þar sem þingfest verður ákæra á hendur honum í 18 liðum. Hann er sakaður um stórfelldan fjárdrátt, fjársvik og þjófnað, að sögn Rúv. Sjá nánar um ákæruna á vef Rúv.
Þýfi og svik Sigurðar eru metin á rúmar 30 milljónir króna, samkvæmt Rúv sem virðist hafa ákæruna undir höndum. Hann er sagður hafa beitt ýmsum aðferðum til að svíkja út vörur og þjónustu og auk þess blekkt fólk til að millifæra háar upphæðir á bankareikninga undir fölskum forsendum.
Þar á meðal mun hann hafa stolið 6,7 milljónum króna frá samtökunum Wikileaks, með því að þykjast vera stofnandi þeirra, Julian Assange. Sigurður Ingi, sem er aðeins 21 árs gamall, starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Wikileaks en lék tveimur skjöldum því á sama tíma veitti hann bandarísku alríkislögreglunni, FBI, upplýsingar um starf Wikileaks.
Sigurður Ingi hefur áður hlotið dóm, en hann var í október 2013 dæmdur í 8 mánaða fangelsi og til að greiða 800.000 kr í miskabætur vegna kynferðisbrots gegn 17 ára pilti. Á síðasta ári felldi ríkissaksóknari niður mál á hendur honum vegna fjárkúgunar gagnvart Nóa Siríusi.
Sjá fyrri fréttir mbl.is:
Fyrst og síðast mannlegur harmleikur
„Siggi hakkari“ á launaskrá FBI