Ævintýraleg ákæra yfir „Sigga hakkara“

Sigurður Ingi Þórðarson, sem jafnan er nefndur Siggi hakkari, kom fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Þá var þingfest yfir honum ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Ákæran er á þrjátíu blaðsíðum, í 18 köflum, og sat Sigurður Ingi sallarólegur á meðan hún var lesin upp.

Sigurður Ingi mætti jakkafataklæddur og með sólgleraugu í héraðsdóm. Hann var í fylgd fangavarða en hann afplánar dóm í fangelsi vegna fyrri afbrota. Auk þess kom fram við þingfestinguna að lögreglan er með fleiri brot Sigurðar Inga til rannsóknar, kynferðisbrot, og verða þau send ríkissaksóknara innan tíðar. Hins vegar er ekki talið líklegt að málin verði sameinuð, enda ákæran sem þingfest var í morgun afar umfangsmikil, spannar langan tíma, frá 2011 til 2014, og gæti aðalmeðferð því tekið langan tíma.

Fjölmargir kröfuhafar mættu

Þröng var á þingi fyrir utan dómsal 1 í dómhúsinu í Hafnarfirði en þar voru samankomnir fimmtán kröfuhafar í málinu, eða fyrirsvarsmenn þeirra. Þeir komu víða að, til dæmis frá ÁTVR, Högum, Atlantsolíu, ALP bílaleigu, Smáralind, KFC, Brimborg og Wikileaks.

Eftir að allir höfðu komið sér fyrir gerði sækjandinn grein fyrir ákærunni. Flestir ákæruliðir varða fjársvik en einnig segir að Sigurður Ingi hafi farið í tvær Vínbúðir 17. janúar 2014 og stolið þaðan vodkaflöskum og öðru sterku áfengi. Alls nemur upphæðin sem Sigurður Ingi er sagður hafa stolið eða svikið út um þrjátíu milljónum króna.

Sem dæmi má nefna að Sigurður Ingi er ákærður fyrir að svíkja út gjafakort í Smáralind fyrir eina miljón króna. Ekki tókst að vísu að ná út vörum nema fyrir 99 þúsund krónur þar sem árvökulir starfsmenn í verslunum Smáralindar áttuðu sig á því að ekki var allt með felldu.

Þá er hann einnig ákærður fyrir eignaspjöll, sagður hafa komið fyrir ljósabúnaði og sírenu í bílaleigubíl sem hann tók að láni. Kostaði viðgerðin rúmar áttatíu þúsund krónur. Og þá er hann sagður hafa nýtt sér að greiðslukortavélar í flugvélum Icelandair eru ekki tengdar við síma og straujað kort sitt, sem ekki var heimild á, fyrir næstum tvö hundruð þúsund krónur.

Allt í eigin neyslu

Ennfremur má nefna að Sigurður Ingi er ákærður fyrir að svíkja nokkra unga menn til að millifæra á reikning sinn tæplega fimm milljónir. Samkvæmt því sem segir í ákæru sagði hann þeim að hann ætlaði að opna reikning fyrir þá í erlendum banka og að þeir myndu græða stórfé í vexti. Peninga sína sáu þeir hins vegar aldrei aftur þar sem Sigurður Ingi sólundaði þeim í eigin neyslu, að því segir í ákæru. 

Í samráði við verjanda sinn, Vilhjálm H. Vilhjálmsson, ákvað Sigurður Ingi að taka sér frest til að fara yfir ákæruna. Hann mun taka afstöðu til ákærunnar upp úr miðjum ágústmánuði þegar málið verður tekið fyrir að nýju.

Sig­urður Ingi hef­ur áður hlotið dóm, en hann var í októ­ber 2013 dæmd­ur í 8 mánaða fang­elsi og til að greiða 800.000 kr í miska­bæt­ur vegna kyn­ferðis­brots gegn 17 ára pilti. Á síðasta ári felldi rík­is­sak­sókn­ari niður mál á hend­ur hon­um vegna fjár­kúg­un­ar gagn­vart Nóa Siríusi.

Sjá fyrri frétt­ir mbl.is:

„Siggi hakkari“ fyrir dóm á ný

Fyrst og síðast mann­leg­ur harm­leik­ur

Siggi hakk­ari á lúx­us­hót­el­um

„Siggi hakk­ari“ á launa­skrá FBI

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka