Lög verða sett á fyrirhugað verkfall flugvirkja, sem hugðust leggja ótímabundið niður störf frá og með fimmtudeginum, 19. júní. Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndar Flugvirkjafélags Íslands, fékk boð þessa efnis í morgun.
Samninganefndir Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Icelandair, hittast hjá ríkissáttasemjara klukkan 15.30 í dag.
„Við mætum í dag af virðingu við ríkissáttasemjara. Hann hefur boðað til fundarins,“ sagði Maríus.
Hann segir samninganefndirnar hafa fundað 22 sinnum, þar af 14 sinnum hjá ríkissáttasemjara. Samningar losnuðu 31. janúar og var fyrsti samningafundur í desember.
Alþingi verður kallað saman vegna lagasetningarinnar. Hinn 15. maí samþykkti Alþingi lög á verkfall flugmanna. Föstudaginn 16. maí var þingi svo slitið og var þingfundur næst boðaður 9. september næstkomandi.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að flugvirkjar hafi hafnað tillögum Icelandair um breytt vaktafyrirkomulag. Flugvirkjar lögðu fram tilboð í gærkvöldi sem Icelandair hafnaði.
Flugvirkjar starfandi hjá Icelandair fóru í 24 klukkustunda vinnustöðvun frá 6.00 að morgni 16. júní og boðuðu síðan sem fyrr segir ótímabundna vinnustöðvun frá kl. 6.00 að morgni 19. júní ef ekki tækist að semja fyrir þann tíma.