Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar og Daníel prins heimsóttu heilbrigðistæknifyrirtækið Össur í dag þar sem þau kynntu sér starfsemi og vörur fyrirtækisins. Hjónin heilsuðu í leiðinni upp á Hilmar Snæ Örvarsson, 13 ára pilt með gervifót. Hilmar lét þess getið eftir á að „gaman hefði verið að hitta alvöru prinsessu.“ Starfsmenn Össurar voru að stilla gervifót Hilmars sem er af nýjustu gerð slíkra fóta sem Össur framleiðir.
Viktoría óskaði sérstaklega eftir því að fá að heimsækja Össur í Íslandsheimsókninni en heima í Svíþjóð er hún í forsvari fyrir Krónprinsessusjóðinn sem styrkir sænsk börn og unglinga með hreyfihömlun.
Heimsóknin í Össur hófst á því að Þorvaldur Ingvarsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar tók á móti þeim Viktoríu og Daníel og sagði stuttlega frá starfsemi Össurar. Því næst fóru hinir tignu gestir í skoðunarferð um þróunar- og framleiðsludeildir Össurar og fengu m.a. að fylgjast með prófunum á nýjum stoðtækjum sem verið er að þróa hjá Össuri.
„Það var virkilega gaman fyrir starfsfólk Össurar að fá krónprinsessuna í heimsókn. Bæði vegna áhuga hennar og góðgerðarvinnu með börnum með hreyfihömlun en jafnframt vegna þess að Össur er með mjög umfangsmikla starfsemi í Svíþjóð. Það má geta þess að Svíar eru mjög framarlega í heilbrigðistækni og sterk staða Össurar á sænskum markaði hjálpar okkur við að halda fyrirtækinu í fremstu röð,“ segir Þorvaldur Ingvarsson í tilkynningu.