Ráðherrar funda í Eyjum

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Sumarfundur ráðherra EFTA-ríkjanna verður haldinn í Vestmannaeyjum dagana 22.-24. júní næstkomandi í boði Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Auk hans sækja fundinn þau Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtentstein, Johann Schneider-Ammann, efnahagsmálaráðherra Sviss, og Monika Mæland, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Á fundinum verður rætt um frekari þróun fríverslunarnets EFTA ríkjanna en samningar eru nú í gildi við nærri 70 ríki en EFTA-ríkin eiga nú m.a. í viðræðum við Indland og Víetnam. Einnig munu ráðherrarnir ræða yfirstandandi fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna og möguleg áhrif þeirra á EFTA ríkin auk væntanlegra viðræðna um uppfærslu gildandi samninga við Kanada og Tyrkland.  

Í tengslum við fundinn í Vestmannaeyjum verður undirrituð samstarfsyfirlýsing við Filippseyjar en slík yfirlýsing er gjarnan undanfari þess að formlegar viðræður um fríverslunarsamning hefjist.

Auk fríverslunarmála verða málefni er snerta samstarf ríkjanna við ESB rædd, þ.á.m. rekstur EES samningsins.

Þá munu ráðherrarnir eiga fundi með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafanefnd EFTA. Ráðherrafundur EFTA mun fara fram í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert