Gámarnir fluttir í annað skip

Frá Reyðarfirði. Álver Alcoa Fjarðaráls.
Frá Reyðarfirði. Álver Alcoa Fjarðaráls. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við erum byrjaðir að losa gámana úr skipinu og munum setja þá á morgun í annað skip frá okkur sem við byrjum að lesta annað kvöld,“ segir Karl Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri Thors­hip, í samtali við mbl.is. 

Eins og greint var frá í dag kyrrsetti sýslumaðurinn á Eskifirði flutningaskipið UTA í höfninni á Reyðarfirði vegna skuldar þýsks eiganda þess. Um 7.000 tonn af áli frá Alcoa Fjarðaráli voru um borð í skipinu. Hollenska félagið Cargow BV leigir skipið til flutninganna en Thorship er umboðsaðili félagsins hér á landi.

„Þetta er niðurstaðan gagnvart okkur og Alcoa. Við munum flytja vöruna svona til Evrópu. Hún kemur fyrir vikið tveimur eða þremur dögum seinna en ella,“ segir Karl. Spurður um áhrif þess segir hann að því fylgi að sjálfsögðu óþægindi þegar vöruafhendingu seinki með þessum hætti. „En þetta mun allt leysast.“

Spurður um tjón vegna málsins segir Karl of snemmt að segja til um það. „Það fellur alltaf einhver kostnaður til vegna svona fyrir utan óþægindin. En það er ekki neitt til að tala um held ég eins og staðan er í dag,“ segir hann. Skipið sem sjái um flutninginn sé skipið sem sjá átti um hann í næstu viku en áætlun þess hafi einfaldlega verið flýtt.

„Við leysum þetta svona og eftir tvær vikur geri ég ráð fyrir að þetta verði allt komið á áætlun aftur,“ segir Karl. Spurður hvort segja megi að málið hafi farið betur en á horfðist segir hann að tekist hafi að leysa ágætlega úr því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert