Von um að réttlætið sé í sjónmáli

„Ég held ennþá dauðahaldi í smá vonarneista um það að stjórnvöld sjái ljósið,“ segir Erla Bolladóttir sem mun fara fram á endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála við endurupptökunefnd í næstu viku. Hún  vill að dómstólar sýni fram á sakleysi hennar.

„Þegar málið er komið á þennan stað og það er vöknuð raunveruleg von um að réttlætið sé í sjónmáli þá koma auðvitað upp ýmsar tilfinningar sem ég hef reynt að halda aftur af í gegnum alla þessa áratugi,“ segir Erla í samtali við mbl.is

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu, segir að endurupptökubeiðnin verði lögð fyrir endurupptökunefnd í næstu viku. Nefndin muni síðan senda beiðnina ásamt gögnum til ríkissaksóknara sem þurfi að taka afstöðu til þess hvort hann mæli með endurupptaka verði veitt.

Veigamiklar ástæður fyrir endurupptöku

Erla bendir á að skýrsla starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem var kynnt í mars 2013, sé á meðal þeirra gagna sem verða lögð til grundvallar endurupptökubeiðninni. Þar kom fram, að að það væri hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður allra þeirra sem hlutu dóm í málinu hefði verið óáreiðanlegur eða falskur. Veigamiklar ástæður væru fyrir endurupptöku.

Starfshópurinn sagði þrjár leiðir mögulegar. Ein var sú að ríkissaksóknari meti hvort tilefni sé til endurupptöku .

„Í ljósi hennar [skýrslunnar] þá vekur þetta upp svo mikinn óhug varðandi það hvernig þetta allt gekk fyrir sig. Og það þarf að svara mjög áleitnum spurningum í þessu, eins og til dæmis hvert var tilefni þess að lögregla fór að spyrja akkúrat okkur út í afdrif Guðmundar Einarssonar á sínum tíma,“ segir Erla.

„Bara sú spurning, eða skortur á svörum við henni, ætti að nægja til þess að sýna fram á að þetta er eitthvað mjög óeðlilegt. Það hefur aldrei fengist svar við þeirri spurningu,“ bætir hún við.

Hún tekur hins vegar fram að þessi nýju gögn séu alls ekki skilyrði fyrir endurupptöku málsins. „En þau ættu að gera það útilokað að hafna því,“ segir hún og bætir við aðspurð að gögnin ættu að styrkja hennar málstað.

Ekkert að marka falskar játningar

„Það er töluvert ferli framundan því gagnamagnið er óheyrilegt, ef menn ætla að fara í gegnum það allt. Og ríkissaksóknari þarf að rökstyðja sína afstöðu - hver sem hún verður,“ segir Ragnar og bætir við að hann viti ekki hvað þetta muni taka langan tíma. En það fari eftir því hafa stefnu nefndin taki. Einbeiti hún sér eingöngu að nýjum gögnum þá sé ljóst að um mikið magn nýrra gagna sé að ræða.

„Þar á meðal skýrsla Gísla H. Guðjónssonar [prófessors í réttarsálfræði] og Jóns Friðriks Sigurðssonar [yfirsálfræðings á Landspítalanum], doktora og sálfræðinga, um falskar játningar. Það eru auðvitað algjörlega ný gögn. Það er vart við því að búast að Hæstiréttur hefði sakfellt ákærðu á sínum tíma ef honum hefði verið fullkomlega ljóst að það var ekkert að marka þessar svokölluðu játningar, því það var ekki við neitt annað að styðjast,“ segir Ragnar.

Ragnar bendir á að það sé ekki auðvelt að leggja svona stórt mál fyrir endurupptökunefnd. „Ágripið í Hæstarétti var 26 bindi og síðan komu 11 bindi til viðbótar þegar málið var flutt 1980. Síðan er náttúrulega skýrsla starfshóps, endurupptökubeiðni Sævar Marinós Ciesielski '97 og héraðsdómurinn er 5-600 blaðsíður,“ segir Ragnar.

Aldrei nein forsenda að bendla þau við mannshvörfin

Erla gerði tilraun til þess að fá málið tekið upp að nýju árið 1999 en án árangurs.

„Ég var mjög snautlega afgreidd með þá viðleitni. Þannig að mín von var sáralítil ef nokkur í mörg ár. En einhverjum vikum áður en Sævar [Marinó Ciesielski] féll frá [árið 2011] þá hafði ég hafið undirbúningsstarf að nýju til að leita leiða. Hann dó akkúrat þegar ég var nýkomin af stað með það. Það er bara til marks um að þó að allt sé í lagi hjá mér og í mínu lífi eftir öll þessi ár þá þetta eitthvað sem ég losna aldrei við nema að fá einhverja niðurstöðu í þetta,“ segir hún.

Erla segist vilja að dómstólar sýni fram á hennar sakleysi. „Að það verði sýnt fram á það að það var aldrei nein forsenda til þess að bendla okkur við þessi mannshvörf og þar af leiðandi er ég jafn saklaus frammi fyrir þessum ásökunum eins og hver annar í þessu samfélagi sem er - nema náttúrulega þeir sem kunna að vita eitthvað hvað varð um þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka