„Árangurinn er ekki alltaf mældur í fjölda atkvæða og kjörinna fulltrúa en í því að hafa áhrif á umræðuna,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á flokkráðsfundi í dag. „Við höfum fært umræðuna til – það hefur verið okkar hlutverk að færa mörk hins mögulega í íslenskum stjórnmálum.“
Þemu fundarins voru nýliðnar sveitarstjórnarkosningar og framtíðarstefnumótun VG. Erindi fluttu formaður og varaformaður VG, frambjóðendur flokksins og kosningastjórar sem og Hulda Þórisdóttir stjórnmálafræðingur.
Katrín tók undir orð Björns Vals Gíslasonar, varaformanns VG, frá í morgun. „Ég get tekið undir það sem varaformaður okkar sagði áðan: Ég er ánægð með framgang okkar frambjóðenda,“ sagði hún og nefndi í því samhengi að hún hafi hvergi heyrt gild rök gegn gjaldlausum leikskólum í aðdraganda kosninganna.
Katrín gerði að sérstöku umtalsefni misskiptingu auðs í heiminum og loftslagsbreytingar.
„Stóru pólitísku línurnar næstu áratugina hljóta að snúast meðal annars um hvernig við ætlum að bregðast við loftslagsbreytingum, draga úr þeim og undirbúa samfélagið undir þær breytingar sem kunna að verða. Þær snúast líka um misskiptingu auðs sem birtist meðal annars í því að það eru fleiri flóttamenn á ferð nú en nokkru sinni áður frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þetta eru stóru viðfangsefnin. Ójöfnuður er stærsta ógn við frið í heiminum.“
Svörin við þessum stóru og oft flóknu málum hljóti hinsvegar að vera tvö. Annars vegar að hafa réttlætið að leiðarljósi þegar samfélagið er skipulagt til að mæta vaxandi ójöfnuði, en hinsvegar að leitast eftir sjálfbærni þegar hugað er að loftslagsbreytingum.
„Ef við lítum á þetta út frá réttlæti og sjálfbærni þá held ég að við höfum svörin á reiðum höndum. Er það til dæmis réttlátt að lækka skatta á þá sem hafa mest, með afnámi auðlegðarskatts og lækkun veiðigjalda?“
Katrín ræddi að í gegnum tíðina hafa Vinstri græn sett mál á dagskrá í íslenskum stjórnmálum. „Við höfum fært umræðuna til – það hefur verið okkar hlutverk að færa mörk hins mögulega í íslenskum stjórnmálum.“
Katrín nefndi í því samhengi Kárahnjúkavirkjun og stóriðjustefnuna, jafnréttisbaráttuna, Íraksstríðið og tekjujafnandi skattbreytingar.
„Einn vandi íslenskra stjórnmála er að við hugsum í kjörtímabilum. En þegar við erum að ræða stóru málin þá dugir ekki að hugsa til næstu fjögurra ára. Þá þarf að hugsa til næstu 100 ára. Og það ætlum við að gera á þessum fundi. Fyrir næsta landsfund þurfum við að vera komin með sýn og aðgerðaráætlun fyrir næstu hundrað árin“
Katrín ræddi einnig um fyrirhugaða lagasetningu á verkfall flugvirkja. „Við erum að ræða um grundvallar mannréttindi fólks til að berjast fyrir kjörum sínum. Ef við erum að horfa á samfélag með vaxandi ójöfnuð megum við ekki slaka á í þessu,“ sagði hún og bætti við:
„Réttindi hafa ekki unnist með því að vera hress, réttindi hafa unnist með baráttu,“ sagði Katrín en tók jafnframt fram að þótt barist sé fyrir réttlæti megi líka vera hress inn á milli.