Birkir áfrýjar til Hæstaréttar

Birkir Kristinsson
Birkir Kristinsson mbl.is/Rósa Braga

„Dómurinn kom Birki verulega á óvart, þar sem hann átti von á því að málinu yrði vísað frá eða hann sýknaður,“ segir Ólafur Eiríksson verjandi Birkis Kristinssonar sem var í dag dæmdur í 5 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur, fyrir hlutdeild í BK-44 málinu svonefnda. Áfrýjun verður lögð fram í dag.

Þetta er með þyngstu dómum sem fallið hafa í efnahagsbrotamálum á vegum embættis sérstaks saksóknara.

Í desember 2013 var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, dæmdur í 5 og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, hlaut þá 5 ára dóm, Magnús Guðmundsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka í Lúxemborg fékk 3 ár og Ólafur Ólafsson 3 á hálfs árs dóm. Þeim dómi var einnig áfrýjað og bíður niðurstöðu Hæstaréttar.

3,8 milljarða króna lánveiting

Hinir sakfelldu í BK-44 málinu voru allir nokkuð lægra settir innan bankakerfisins. Ákæra sérstaks saksóknara í málinu kom til vegna 3,8 milljarða króna lánveitingar bankans til einkahlutafélagsins BK-44 í nóvember 2007, en félagið var í eigu Birkis.

Birkir var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis og annaðist mál efnameiri viðskiptavina bankans. Athygli vekur að hann er aðeins fundinn sekur um hlutdeild að málinu, en fær engu að síður sömu refsingu og hinir.

Auk hans voru í dag þeir Elmar Svavarsson verðbréfamiðlari og Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, einnig dæmdir í 5 ára fangelsi. Magnús Arnar Arngrímsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, var dæmdur í 4 ára fangelsi. Dómarnir eru allir óskilorðsbundnir.

Byggt á röngum fullyrðingum

Að sögn verjanda Birkis hefur ákvörðun þegar verið tekin um að áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar.

„Eftir lestur forsendna dómsins og það sem dómurinn byggir niðurstöðu sína á, þá telur Birkir að niðurstaðan gagnvart honum sé byggð á röngum fullyrðingum um staðreyndir, bæði um aðkomu hans að málum og vitneskju hans. Þess vegna kom þetta honum verulega á óvart,“ segir Ólafur.

„Það er fullyrt um ýmislegt sem hann á að hafa vitað, en gerði ekki, rangt eftir honum haft og að hans mati farið rangt með ákveðin símtöl og tölvupósta sem liggja fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert