Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Birki Kristinsson, Elmar Svavarsson og Jóhannes Baldursson í fimm ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að BK-44-málinu svonefnda. Þá var Magnús Arnar Arngrímsson dæmdur í fjögurra ára fangelsi.
Í málinu voru fjórir fyrrverandi starfsmenn Glitnis ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga. Mennirnir eru Birkir Kristinsson, sem var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis, Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.
Ákæran kom til vegna 3,8 milljarða lánveitingu bankans til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis og voru Jóhannes, Magnús og Elmar ákærðir fyrir umboðssvik með því að veita félaginu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Birkir var svo ákærður fyrir hlutdeild í brotinu. BK-44 seldi hlutina á árinu 2008 þegar gert var upp við félagið nam tap Glitnis tveimur milljörðum króna.
Málið hverfist um kaup BK-44 á 150 milljón hlutum í Glitni banka, lánveitingu Glitnis til BK-44 vegna kaupanna, munnlegan samning um skaðleysi og uppgjör sem ekki aðeins tryggði BK-44 skaðleysi heldur einnig hagnað, þrátt fyrir mikla lækkun á virði bréfanna í bankanum og vaxtasöfnun lánsins.
Saksóknari sagði ekkert hafa verið sett á blað um þennan samning, enginn lánastjóri hafi komið að málinu, engin lánabeiðni útgefin, ekki hafi verið rætt um viðskiptin í áhættunefnd Glitnis eða lánanefndum, ekki gengið frá tryggingum, gjaldfærni BK-44 hafi ekki verið könnuð, ekki hafi verið farið eftir undirskriftarreglum, samningur hafi ekki verið skjalfestur og ekkert lá fyrir um sölurétt. Þrátt fyrir það nam hluturinn um einu prósenti af hlutum í bankanum og voru viðskiptin tilkynnt til Kauphallarinnar.
Mennirnir neituðu allir sök. Verjandi Jóhannesar sagði samtímagögn sýna að skjólstæðingur hans átti enga aðild að málinu, verjandi Elmars sagði hann ekki hafa verið í stöðu til að taka ákvarðanir. Hann hafi aðeins tekið við fyrirmælum frá yfirmönnum sínum og framkvæmt í samræmi við þær. Verjandi Magnúasar sagði að þetta tiltekna lánamál hefði ekki verið á hans borði og gögn beri þess ekki merki að Magnús hafi unnið að því. Hann hafi eingöngu miðlað þeim upplýsingum áleiðis að samþykkt hafi fengist á ákveðnum lánamörkum.
Verjandi Birkis sagði að hann hefði tekið þátt í þessum viðskiptum með hagnaðarvon að leiðarljósi. Hann hafi ekki átt frumkvæði að viðskiptunum og sem starfsmaður Glitnis hafi hann ekki komið að framkvæmdinni að nokkru leyti.