„Kæra hefur verið lögð fram til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þar sem Ingveldur er kærð fyrir brot gegn almennum hegningalögum,“ segir Arna McClure, lögfræðingur útgerðarfyrirtækisins Samherja.
Lögð var fram kæra í morgun fyrir hönd dótturfélags Samherja, Polaris Seafood, á hendur Ingveldi Einarsdóttur hæstaréttardómara vegna heimildar sem hún veitti sem héraðsdómari í mars 2012 til húsleitar hjá Samherja og nokkrum fyrirtækjum tengdum því og haldlagningar á gögnum vegna rannsóknar Seðlabanka Íslands á meintum brotum á gjaldeyrislögum.
Ingveldur er kærð fyrir brot í opinberu starfi með vísan í 131. grein almennra hegningarlaga þar sem segir að framkvæmi dómari ólöglega leit eða leggur með ólögmætum hætti hald á skjöl eða aðra muni varði slíkt sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Ingveldur hafi brotið gegn þessu ákvæði með því að kanna ekki hvort Seðlabankinn hefði lagaheimild til húsleitarinnar en fyrirtækið telur svo ekki hafa verið.
Valdið ómældum skaða með háttsemi sinni
Ennfremur er Ingveldur kærð fyrir brot gegn sakamálalögum með því að hafa ekki varðveitt fylgiskjöl eða gögn sem lögð voru fram við fyrirtöku málsins. Arna segir að Samherji hafi í desember fengið skriflega staðfestingu á því frá héraðsdómi að þessum gögnum hefði ekki verið haldið til haga en það sé brot á 15. grein laganna. Fyrir vikið hafi fyrirtækið ekki getað kynnt sér þann málatilbúnað sem lagður var fyrir héraðsdóm þegar heimild var veitt fyrir húsleit og haldlagningu gagna.
„Að mati kæranda hefur hinn kærði héraðsdómari með ætlaði refsiverðri háttsemi sinni brugðist mikilvægum skyldum sínum og valdið ómældum skaða fyrir kæranda sem og aðra aðila sem aðgerðir Seðlabankans beindust að. Um er að ræða mjög alvarleg brot sem höfðu það í för með sér að kæranda var gert að ósekju að sæta þvingunarráðstöfunum á grundvelli ólögmæts úrskurðar,“ segir m.a. í kærunni. Þá áskilur kærandi sér rétt til að koma fram með bótakröfu á síðari stigum málsins.
Fyrirtækin aldrei haft stöðu sakbornings
Arna segir rétt að halda því til haga vegna ummæla Skúla Magnússonar, formanns Dómarafélagsins, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að hvorki Samherji né önnur tengd fyrirtæki hafi nokkurn tímann haft stöðu sakbornings í málinu. Staðfesting þess efnis hafi fengist frá embætti Ríkissaksóknara. Skúli sagði þar að skiljanlegt væri að sakborningar í sakamálum beindu spjótum sínum að dómurum.
Spurð hvort viðbrögð hafi borist frá lögreglunni segir hún að móttaka hafi einfaldlega verið staðfest. „Ég geri bara fastlega ráð fyrir að lögreglan rannsaki þetta mál eins og önnur mál. Við bara bíðum og sjáum.“