Leita að Ástu næstu helgi

Frá leitinni í Bleiksárgljúfri í gær.
Frá leitinni í Bleiksárgljúfri í gær. Ljósmynd/Guðbrandur Örn Arnarson.

Útlit er fyrir að leit að Ástu Stefánsdóttur verði ekki haldið áfram fyrr en næstu helgi. Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, en hann fundaði með Guðbrandi Erni Arnarsyni, stjórnanda aðgerðarinnar í Bleiksárgljúfri, fyrr í dag. Sérsmíða þarf hluti sem notaðir verða við leitina.

Ágúst Þór Gunnlaugsson í Hjálparsveit skáta í Garðabæ var einn af undanförunum í leitinni í gær. Undanfarar í leitum eru oft sérhæfðir fjallabjörgunarmenn en Ágúst Þór seig sex sinnum ofan í gljúfrið. 

Gljúfrið þrengist og víkkar til skiptis

Hann segir í samtali við mbl.is að erfitt sé að gera sér grein fyrir hversu hátt og hrikalegt gljúfrið er þegar staðið er á brúnum þess. „Það þrengist og víkkar til skiptist og áin er búin að rjúfa sig í gegnum bergið. Mikið er af útskotum og hellum sem maður sér ekki fyrr en maður sígur niður í línu,“ segir Ágúst Þór.

Neðst í gljúfrinu við fossinn þar sem mikið hefur verið leitað er stór hvelfing sem fossinn hefur sorfið í bergið. „Þegar maður endar niðri er maður í lausu lofti og snertir ekki veggina. Þar er erfitt að athafna sig, fimm metrar í næsta vegg,“ segir Ágúst Þór.

Rík áhersla er lögð á að tryggja öryggi björgunarfólksins sem tekur þátt í leitinni. Öryggislínur eru festar í bergið en fyrst þarf að bora og festa bolta. Í gær seig björgunarfólkið niður í tveimur hópum og unnu hægt og rólega hver að öðrum.

 Fljótlega eftir hádegi komu rörin sem á að nota til að beina Bleiksá úr farveginum og þurfti að koma þeim fyrir. Rörin eru um 10 til 12 metrar og hvort um sig um 200 kíló.

Mjög krefjandi að tryggja öryggi fólksins

„Þegar maður er við fossinn kemur mikið vatn niður, það er mikil ólga og ekkert skyggni ofan í vatninu,“ segir Ágúst Þór. Víða er mjög dimmt, til að mynda innst við fossinn.

Ágúst Þór segir að verkefnið sé krefjandi og þörf sé á mikilli sérþekkingu. Hann segist oft hafa unnið í línuvinnu en þetta sé með því mesta sem  hann hafi þurft að gera í tengslum við svona vinnu inni í landi

Aðspurður segir hann einna mest krefjandi við björgunaraðgerðina að tryggja öryggi þeirra sem leita. „Það er lykilatriði,“ segir Ágúst Þór. 

Björgunarsveitarmenn horfa niður með Bleiksárgljúfri á þyrlu Landhelgisgæslunnar sem tók …
Björgunarsveitarmenn horfa niður með Bleiksárgljúfri á þyrlu Landhelgisgæslunnar sem tók þátt í leitinni. Ljósmynd/Þorsteinn Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert