Keppni hófst í dag í WOW Cyclothon hjólreiðakeppni WOW Air, en hún fer nú fram í þriðja sinn. Í keppninni er hjólað norðurleiðina hringinn í kringum landið, bæði í einstaklingsflokki sem og í liðum með boðsveitarformi. Keppendur safna áheitum og rennur söfnunarfé síðan til bæklunarskurðdeildar Landspítalans.
Einstaklingsflokkurinn var ræstur út frá Hörpu klukkan 10 í morgun og hafa keppendur í honum 84 klukkustundir til þess að hjóla hringinn. Liðakeppnin skiptist hins vegar í flokk fjögurra til sex manna liða annars vegar og tíu manna liða hins vegar og eru báðir ræstir út frá Hörpu. Liðin hafa 72 klukkustundir til þess að ljúka hringferð sinni.
Fjögurra til sex manna flokkurinn var ræstur út klukkan 19 í kvöld, en tíu manna flokkurinn klukkan 20. Fjölmennt var við rásmarkið, enda fjölmörg lið skráð til leiks. Rétt rúmlega sex milljónir króna hafa nú safnast í gegnum áheit, en áfram er hægt að heita á keppendur.