Rannsókn á hópnauðgun í Breiðholti er að ljúka og verður málið sent til ríkissaksóknara á næstu dögum, að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar.
Fimm piltar á aldrinum 17 til 19 ára eru grunaðir um að hafa nauðgað sextán ára stúlku aðfaranótt sunnudagsins 4. maí. Þeir voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 15. maí.
Piltarnir hafa allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna, en segjast hafa talið að hún væri því samþykk. Piltunum ber þó ekki saman um atburðinn og atburðarás honum tengda.
Aftur á móti hefur rannsókn á máli, þar sem ung kona óskaði eftir aðstoð á Langholtsvegi og grunur lék á að hefði verið nauðgað, verið hætt án niðurstöðu.
Rannskókn á líkamsárás á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi er langt komin en ekki vitað hvort málinu verði vísað til ákæruvaldsins, að sögn Friðriks Smára.
Einn maður sat í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsóknina í viku. Sá er grunaður um að hafa slegið, skallað og hrint öðrum manni sem hlaut lífshættulega áverka á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi aðfararnótt uppstigningadags.
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á líkamsárás sem átti sér stað við Selbrekku í Kópavogi er langt komin að sögn Friðriks Smára en karlmaður fannst liggjandi í blóði sínu fyrir utan hús í götunni að morgni 30. maí sl.
Maður sem er grunaður um árásina var handtekinn og úrskurður til að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun til 6. júní sl. Ekki var farið fram á áframhaldandi gæsluvarðahald.
Rannsókn á líkamsrás langt komin