Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag þá Lýð Guðmundsson og Sigurð Valtýsson af öllum kröfum ákæruvaldsins í svokölluðu VÍS-máli. Þeir voru báðir sakaðir um brot á lögum um hlutafélög og Lýður var ákærður fyrir umboðssvik, en hann var sakaður um að stefna fé VÍS í verulega hættu.
Sérstakur saksóknari ákærði þá Lýð og Sigurð 11. október á síðasta ári.
Lýður var ákærður fyrir brot á lögum um hlutafélög með því að hafa á árinu 2009, sem stjórnarformaður og prókúruhafi hlutafélagsins Vátryggingarfélag Íslands, látið félaga veita Sigurði, sem var þáverandi stjórnarmaður VÍS, óheimilt lán að fjárhæð 58,6 milljónir króna. Þann 3. febrúar 2009 var andvirði lánsins greitt inn á reikning Sparisjóðabanka Íslands þaðan sem fjármunum var veitt áfram inn á reikning Kaupthing Bank í Lúxemborg til lækkunar á skuld Sigurðar við þann banka. Þá samþykkti Lýður framlengingu á láninu sex sinnum, að því er segir í ákærunni.
Lýður kvað fyrir dómi rangt að hann hefði látið VÍS veita Sigurði lánið. Í dómi héraðsdóms segir, að verknaðarlýsing í fyrsta kafla ákærunnar hafi ekki á stoð í gögnum málsins að nægi gegn neitun Lýðs og framburði vitnis til þess að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíli. Þykir ákæruvaldið hvorki hafa fært sönnur á þær fullyrðingar sínar að Lýður hafi á árinu 2009 látið VÍS lána Sigurði óheimilt lán að fjárhæð 58,6 milljónir né samþykkt framlengingu á láninu sex sinnum.
Sigurður var ákærður fyrir brot á lögum um hlutafélög með því að hafa sem stjórnarformaður og prókúruhafi VÍS ítrekað látið félagið veita einkahlutafélaginu Korki óheimil lán. Fram kom í ákærunni, að Korkur hefði verið beint og síðar óbeint í helmingseigu Lýðs auk þess sem Lýður gegndi stöðu framkvæmdastjóra Korks allan tímann sem ákæran tekur til. Sigurður lét m.a. VÍS veita Korki lán í sex skipti sem hljóðuðu upp á 15 til 50 milljónir króna.
Sigurður neitaði fyrir dómi að hann hefði tekið ákvörðun um sex lán til Korks og greindi frá því að annar maður, Bjarni Brynjólfsson, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri eigin viðskipta Exista, hefði tekið ákvörðun um lánin. Bjarni mætti sem vitni og útilokaði hann ekki að hafa tekið ákvörðum um og gengið frá lánunum til Korks án þess að spyrja nokkurn annan að því. Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að Sigurður hafi átt þátt í lánveitingunum eins og lýst sé í ákærunni. Það er því mat dómsins að verknaðarlýsing í öðrum kafla ákærunnar hafi ekki þá stoð í gögnum málsins að nægi gegn neitun Sigurðar og framburði vitnisins til að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíli.
Þá var Lýður ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa í janúar 2009 misnotað aðstöðu sína, sem stjórnarformaður og prókúruhafi VÍS, þegar hann fór út fyrir heimildir sínar og stefndi fé VÍS í verulega hættu með því að láta VÍS kaupa skuldabréf af svila Sigurðar fyrir 24 milljónir króna, þrátt fyrir að kaupin gengju gegn fjárfestingarstefnu VÍS, væru í andstöðu við hagsmuni félagsins og án þess að stjórn VÍS væri upplýst um kaupin.
Lýður neitaði fyrir dómi að hafa gefið heimild fyrir kaupum á skuldabréfinu. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að verknaðarlýsingin í þriðja kafla ákærunnar hafi ekki þá stoð í gögnum málsins að nægi gegn neitun Lýðs og framburðum þriggja vitna til að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir.
Lýð var ennfremur ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa í febrúar 2009 misnotað aðstöðu sína þegar hann fór út fyrir heimildir sína og stefndi fé VÍS í verulega hættu með því að láta VÍS kaupa skuldabréf af einkahlutafélagi, sem var í eigu Svila Sigurðar, að fjárhæð 34,7 milljónir, þrátt fyrir að kaupin gengju gegn fjárfestingarstefnu VÍS.
Lýður bar fyrir dómi að hann vissi ekkert um kaup VÍS á skuldabréfinu og hefði ekki vitað neitt um félagið, eignir þess eða skuldir. Héraðsdómur kemst enn og aftur að sömu niðurstöðu, þ.e. að verknaðarlýsing í þessu kafla ákærunnar hafi ekki þá stoð í gögnum málsins að nægi gegn neitun Lýðs og framburðum tveggja vitna til að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíli.
Þá var Lýður ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa í október 2009 misnotað aðstöðu sína er hann fór út fyrir heimildir sínar og stefndi fé VÍS í verulega hættu með því að láta VÍS kaupa samtals 40% hlutafjár í fyrrgreindu einkahlutafélagi fyrir 150 milljónir króna, þrátt fyrir að kaupverðið væri of hátt miðað við stöðu félagsins. Þá gengu kaupin gegn fjárfestingarstefnu VÍS og voru í andstöðu við hagsmuni VÍS.
Í dómi héraðsdóms segir, að hvorki verði ráðið af framburði vitna fyrir dómi né af gögnum málsins að Lýður hefði í krafti stöðu sinnar hjá VÍS látið VÍS kaupa 40% hlutafjár í félaginu fyrir 150 milljónir með því að hafa misnotað aðstöðu sína og farið út fyrir sínar heimildir. Það er því mat dómsins að verknaðarlýsingin í ákærunni fái ekki stoð í gögnum málsins að nægi gegn neitun Lýðs og framburði þriggja vitna til að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíli.
Ekki hefur verið tekið ákvörðun hvort ákæruvaldið áfrýi dómnum til Hæstaréttar.