Tekin var ákvörðun um þátttöku Íslands í viðræðum um gerð fjölþjóðlegs samnings um þjónustuviðskipti (TiSA) í tíð síðustu ríkisstjórnar en um fimmtíu ríki eiga aðild að viðræðuferlinu. Þar á meðal ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin, Ástralía, Kanada, Noregur Sviss, Japan o.fl. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu vegna umræðu um aðkomu Íslands að TiSA-viðræðunum.
Ennfremur er því hafnað að viðræðurnar hafi verið haldið leyndum. Þvert á móti hafi verið lögð áhersla á að upplýsa um framgang þeirra. Þannig hafi til að mynda verið haldnir upplýsingafundir með Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), Samtökum atvinnulífsins (SA), Samtökum iðnaðarins (SI), Bandalagi háskólamanna (BHM), Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ), Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF), Íslenska jarðvarmaklasanum og fleiri aðilum.
Þá hafi ennfremur verið staðið að svokallaðri hagsmunainnköllun sem beint hafi verið til íslenskra fyrirtækja með upplýsingum um TiSA-ferlið.
Fréttatilkynningin í heild:
Ísland er eitt þeirra ríkja sem hafa rætt gerð fjölþjóðlegs samnings um þjónustuviðskipti, TiSA, í ljósi ört vaxandi mikilvægis þessara viðskipta. Í gildi er GATS samningurinn innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, General Agreement on Trade in Service, en þróun hans hefur hins vegar staðið í stað frá því að samningurinn gekk í gildi þrátt fyrir breytt viðskiptaumhverfi. Í kringum 50 ríki eiga núna aðild að TISA-ferlinu, þ.á.m. aðildarríki ESB, Bandaríkin, Ástralía, Kanada, Noregur, Sviss, Japan, o.fl.. Stefnt er að því að að fleiri ríki geti gerst aðilar að TISA samningnum á síðari stigum og jafnvel að samningurinn falli síðar undir kerfi WTO.
Ákvörðun um að Ísland tæki þátt var tekin í desember 2012 af þáverandi utanríkisráðherra og staðfest af núverandi ríkisstjórn í júní árið 2013. Litið var til þess að samstarfsríki okkar innan EFTA, Noregur og Sviss, taka þátt í viðræðunum svo og ESB og Bandaríkin þar sem Ísland á sína stærstu viðskiptahagsmuni.
Samningurinn mun byggja á GATS reglum og fjalla sérstaklega um sjóflutninga, orkumál, fjármagnsþjónustu, póstþjónustu, fjarskipti, aðgang þjónustuveitenda og rafræn viðskipti. Markmiðið er að fækka hindrunum sem standa í vegi fyrirtækjum sem starfa á vettvangi þjónustuviðskipta.
Ísland hefur lagt megináherslu á að ná sem bestum kjörum fyrir fyrirtæki á sviði hátækni- og orkumála og á sviði alþjóðlegra sjóflutninga. Undirbúningur hérlendis hefur því m.a. falist í því að eiga fundi með hagsmunasamtökum og fagráðuneytum auk þess sem að ítarlegt ferli fyrir hagsmunagreiningu fyrirtækja sem starfa erlendis á sviði þjónustuviðskipta hefur verið sett á laggirnar.
Flest þátttökuríkin hafa nú skilað inn tilboðum sínum og sendi Ísland inn upphafstilboð sitt vegna TiSA í desember sl. Tilboð Íslands byggir alfarið á íslenskri löggjöf og endurskoðuðu GATS tilboði frá árinu 2005 sem er endurspeglað í hefðbundnum listum vegna þjónustuviðskipta. Listinn var unninn í góðu samstarfi við fagráðuneytin. Einu breytingarnar sem gerðar voru á tilboðinu frá 2005 endurspegla metnað Íslands á sviði orkutengdrar þjónustu.
Áhersla hefur verið lögð á að upplýsa um framgang TiSA viðræðnanna og hafa verið haldnir upplýsingafundir m.a. með ASÍ, BSRB, BHM og SI, SA, SFF, SVÞ, Samtökum ferðaþjónustunnar, Íslenska jarðvarmaklasanum ofl. Þá hefur verið staðið að svokallaðri hagsmunainnköllun sem beint var til íslenskra fyrirtækja með upplýsingum um TiSA ferlið.