Elmar Svavarsson, Jóhannes Baldursson og Magnús Arnar Arngrímsson hafa allir áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll á mánudag í svokölluðu BK-44-máli, til Hæstaréttar.
Greint var frá því á mánudag að Birkir Kristinsson, sem var einnig dæmdur í málinu, hefði áfrýjað dómnum til Hæstaréttar.
Þeir Birkir, Elmar og Jóhannes voru dæmdir í fimm ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að málinu. Þá var Magnús Arnar dæmdur í fjögurra ára fangelsi.
Í málinu voru fjórir fyrrverandi starfsmenn Glitnis ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga, þ.e. þeir Birkir, sem var starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis, Jóhannes, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.
Ákæran kom til vegna 3,8 milljarða lánveitingu bankans til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Félagið var í eigu Birkis og voru Jóhannes, Magnús og Elmar ákærðir fyrir umboðssvik með því að veita félaginu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Birkir var svo ákærður fyrir hlutdeild í brotinu. BK-44 seldi hlutina á árinu 2008 þegar gert var upp við félagið nam tap Glitnis tveimur milljörðum króna.