Hafnaði nöfnunum árið 2010

Hvað á barnið að heita?
Hvað á barnið að heita? AFP

Mannanafnanefnd hafnaði því að færa eiginnöfnin Duncan og Harriet á mannanafnaskrá þann 24. júní árið 2010. Vísir greindi frá því fyrr í dag að stúlka fái ekki vegabréf þar mannanafnanefnd hefur hafnað nafninu hennar, Harriet, og heitir hún enn stúlka í dag. 

Í síðustu viku sótti móðir stúlkunnar um vegabréf fyrir Harriet þar sem að fjölskyldan hyggur á ferðalag til Frakklands næstkomandi þriðjudag. Í gær tilkynnti Þjóðskrá þeim að vegna þess að nafnið Harriet væri ekki samþykkt af mannanafnanefnd væri ekki hægt að gefa út vegabréf á hennar nafni.

Samkvæmt fimmtu greinar laga um mannanöfn skal eiginnafn geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Ekki hefð fyrir rithætti

Í úrskurði nefndarinnar frá 2010 segir að annað foreldri barnanna sé ekki af íslenskum uppruna. „Sé annað foreldri barns erlendur ríkisborgari eða hafi verið það er heimilt að barninu sé gefið eitt eiginnafn og/eða millinafn sem víkur frá ákvæðum 5.–7. gr. ef unnt er að sýna fram á að hið erlenda nafn sé gjaldgengt í heimalandi hins erlenda foreldris. Barnið skal þó ávallt bera eitt eiginnafn sem samrýmist 5. gr, “ segir í úrskurðinum.

Þá segir einnig að ritháttur nafnanna Duncan (kk.) og Harriet (kvk.) getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Bókstafurinn c er ekki í íslensku stafrófi og rithátturinnHarriet getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls miðað við að nafnið sé borið fram Harríet.  

Á nöfn er því aðeins heimilt að fallast ef umbeðinn ritháttur þeirra telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn. Samkvæmt lögum um mannanöfn telst ekki vera hefð fyrir rithætti umræddra nafna og var nöfnunum hafnað.

Ekki allir ánægðir með nefndina

Margir hafi gagnrýnt mannanafnanefnd í gegnum tíðina. Sumir telja hana hana tímaskekkju, að foreldrar eigi að fá að nefna börn sín þeim nöfnum sem þeir kjósa og þá eigi hver og einn að eiga kost á að breyta nafni sínu í það eða þau nöfn sem hugurinn girnist síðar meir. 

Í þriðju grein laga um mannanöfn kemur fram að sé eiginnafn eða millinafn barns sem á að hljóta nafn ekki á mannanafnaskrá, skuli bera málið undir mannanafnanefnd. Hlutverk nefndarinnar eru að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem teljast heimili, vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Þjóðskrá Íslands og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum um mannanöfn.

Einnig að skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar. Úrskurðum nefndarinnar er ekki hægt að skjóta til æðra stjórnvalds.

Eigi að leggja mannanafnanefnd niður, þarf væntanlega að breyta lögum um mannanöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert