Hávaði var yfir mörkum á Secret Solstice

Þrátt fyrir að hávaðinn hafi verið yfir mörkum bárust lögreglu …
Þrátt fyrir að hávaðinn hafi verið yfir mörkum bárust lögreglu fáar kvartanir. Eggert Jóhannesson

„Við sem búum við og í nágrenni dalsins urðum fyrir mjög miklu ónæði vegna tónleikanna. Hávaðinn var ólýsanlegur, gluggar titruðu og húsið hreinlega skalf. Það var ekki hægt að horfa á sjónvarp og við þurfum að loka okkur inni á klósetti til að geta talað í síma.“

Þetta segir íbúi í Laugardalnum um hávaða frá Secret Solstice tónlistarhátíðinni sem haldin var um helgina. 

Starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins komu á heimili íbúans laust eftir kl. 23 á föstudagskvöld og mældu hávaða í íbúðinni. Í svefnherbergi íbúðarinnar, með lokuðum glugga, mældist hávaðinn 39 desibel. Hámarkshávaði á þessum tíma vegna atvinnustarfsemi er 25 desibel, samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 um hávaða.

Til samanburðar má nefna að hvísl er yfirleitt um 20 desibel, umhverfishljóð á bókasafni og fuglasöngur er um 40 desibel og samtal tveggja manna er um 60 desibel.

Skipulagið var gott og lítið var um kvartanir

Ágúst Svansson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að hátíðin hafi þó gengið afar vel. „Miðað við umfangið og stærðina á þessum tónleikum, þar sem allt glamraði, var svo sem ekkert rosalega mikið um kvartanir. Ef að slík erindi komu var það afgreitt í rólegheitum,“ segir Ágúst.

Hátíðin var auglýst fyrir íbúasamtökum í íbúahverfum í nágrenni við tónleikastaðinn og segir Ágúst að íbúar hafi sýnt mikinn skilning. „Við og aðrir hagsmunaaðilar erum mjög sáttir með hvernig til tókst. Það var mjög gott skipulag af hálfu allra sem komu að þessu. Þetta var allt saman vel vandað og menn voru vel upplýstir og hagsmunaaðilar sömuleiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert