Lindsor Holding Corporation fékk 6. október 2008 lán frá Kaupþingi banka upp á 171 milljón evra, jafnvirði um 26,5 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi. Stjórnendur Kaupþings höfðu með félagið að gera og var lánið veitt sama dag og Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra neyðalán.
Fjallað er um lánveitinguna í veftímaritinu Kjarnanum. Þar segir að lánið til Lindsor hafi verið verið notað til kaupa á skuldabréfi af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum þess banka og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar. Einnig að embætti sérstaks saksóknara rannsaki málið en einnig lögregluyfirvöld í Lúxemborg.
Kjarninn segir að Lindsor hafi verið í eigu félagsins Otris. Því félagi hafi stjórnendur Kaupþings stýrt og notað sem „ruslakistu“, þ.e. að þangað hafi lélegum og ónýtum eignum verið „hrúgað“.
Þá segir ennfremur að í mars 2011 hafi sérstakur saksóknari, Serious Fraud Office í Bretlandi og lögreglan í Lúxemborg farið í víðtækustu húsleitir sem farið hafa fram í Lúxemborg. Þá hafi meira en sjötíu lögreglumenn leitað í fyrirtæki Skúla, heima hjá Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, og fyrirtækinu Consolium sem var að hluta til í eigu Hreiðars Más. „Verið var að leita að ágóðanum af Lindsor-láninu,“ segir Kjarninn.