Flutningaskip sem sýslumaðurinn á Eskifirði kyrrsetti í síðustu viku vegna óuppgerðra skulda var flutt frá Mjóeyrarhöfn til Reyðarfjarðarhafnar í gær. Fulltrúi sýslumanns segir að ekki sé búið að aflétta kyrrsetningunni og er staðan því óbreytt.
Flutningaskipið sem átti að flytja 7.000 tonn af áli fyrir Alcoa Fjarðaál til Evrópu var fært á milli hafna síðdegis í gær þar sem það var fyrir öðrum skipum í Mjóeyrarhöfn.
Líkt og fram hefur komið heitir skipið UTA og siglir það undir fána Antígva og Barbúda. Það var kyrrsett 18. júní eða skömmu áður en það átti að leggja úr höfn og sigla til Rotterdam í Hollandi. Þýska útgerðin Intersail rekur skipið yfir hönd eigandans.
Hollenska félagið Cargow BV leigði skipið fyrir flutningana, en umboðsaðili fyrir Cargow hér á landi er fyrirtækið Thorship. Um 7.000 tonn af áli frá Alcoa Fjarðaáli voru um borð í skipinu en farmurinn var losaður og færður í annað skip í síðustu viku.
Karl Harðarson, framkvæmdastjóri Thorship, segir í samtali við mbl.is, að Thorship vinni nú að því að sjá til þess að það fari vel um þá 12 sem eru í áhöfn skipsins. Hann á von á því að það verði tekin ákvörðun í næstu viku um það hvort rekstraraðili skipsins fækki mögulega tímabundið í áhöfninni. Vonir standi svo til að hægt verði að sigla skipinu til Þýskalands eða Hollands þegar botn fæst í málið.
Gerðarbeiðandi, sem er erlendur aðili, lagði fram beiðni um kyrrsetningu í síðustu og þar sem naumur tími var til stefnu, þ.e. áður en skipið átti að sigla af stað til Rotterdam, fór fulltrúi sýslumanns um borð í skipið ásamt lögmanni gerðarbeiðanda til að ræða við skipstjórann vegna málsins. Skipstjórinn hafði í framhaldinu samband við eiganda og umboðsaðila skipsins. Fyrirtaka gerðarinnar, sem er bráðabirgðaaðgerð, var síðan færð á skrifstofu fulltrúans á Eskifirði, málið bókað með formlegum hætti og þar féllst fulltrúi sýslumanns svo á kyrrsetninguna.
Í framhaldinu þarf að höfða svokallað staðfestingarmál fyrir dómi. Venjan er að það sé gert innan viku frá kyrrsetningu en í þessu tilfelli tengist þetta erlendum aðilum og þá er fresturinn þrjár vikur. Það verður svo í höndum dómstóls að dæma um réttmæti kröfunnar.