Búið er að koma dælunum fyrir í Bleiksárgljúfri og rafmagnið er komið á. Styttist í það að kveikt verði á dælunum og hafist handa við að dæla vatni úr gljúfrinu til þess að losna við fossinn. Unnið er að því að prófa hvort dælurnar virki.
Meðal annars þurfti að koma þremur stórum rafstöðum fyrir og eru tólf dælur til staðar á svæðinu. Þær vega á bilinu 200 til 900 kíló en ekki er ljóst hvort þær verði allar notaðar í dag. Þrír kafarar eru einnig á vettvangi og munu hugsanlega taka þátt í aðgerðum síðar í dag.
Er þetta liður í leitinni að Ástu Stefánsdóttur, 35 ára lögfræðingi, sem hefur verið saknað í þrjár vikur. Sambýliskona hennar, Pino De Los Angeles Becerra Bolanos, fannst látin í Bleiksárgljúfri þann 10. júní síðastliðinn.
Um 80 björgunarsveitarmenn eru nú á svæðinu frá öllum helstu björgunarsveitum landsins.