Flýtileit sem gerð var í Bleiksá í Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð er lokið og skilaði hún ekki árangri. Leitin stóð yfir í um klukkustund og undirbúa björgunarsveitarmenn nú aðgerðir í gljúfrinu sem miða að því að stífla rennsli árinnar í gilið svo hægt sé að leita betur í hyljum undir fossinum.
Þetta er ein umfangsmesta aðgerð sem liðsmenn Landsbjargar hafa tekið þátt í til þessa.
Hér, hér og hér má lesa um undirbúning aðgerða dagsins.
Leitað er að Ástu Stefánsdóttur, 35 ára lögfræðingi, sem hefur verið saknað í þrjár vikur. Sambýliskona hennar, Pino De Los Angeles Becerra Bolanos, fannst látin í Bleiksárgljúfri þann 10. júní síðastliðinn.
Hátt í 60 björgunarsveitarmenn Slysavarnafélagsins taka þátt í aðgerðum í dag í samvinnu við lögregluna á Hvolsvelli. Þrír kafarar eru einnig á vettvangi og munu hugsanlega taka þátt í aðgerðum síðar í dag.
Að sögn blaðamanns mbl.is sem er við Bleiksárgljúfur var flýtileitin gerð í morgun til að kanna hvort líki Ástu hefði skolað niður með ánni en ekki hefur verið leitað í Bleiksárgljúfri síðan síðasta laugardag.
Leitin bar ekki árangur og stendur því undirbúningur að frekari aðgerðum yfir. Búið er að keyra aðra rafstöðina sem notuð verður upp að fossinum og er verið að gera annan tækjabúnað kláran fyrir aðgerðina.
Umferð að Bleiksárgljúfri er stjórnað við afleggjarann að gljúfrinu. Engum er hleypt inn á leitarsvæðið sem er nokkuð rúmt. Að sögn blaðamanns hafa ekki margir lagt leið sína að svæðinu í morgun.
Ljóst er að vel er staðið að undirbúningi björgunaraðgerðanna. Að sögn blaðamanns er mjög fagmannlega staðið að allri vinnu í tengslum við leitina í dag, undirbúningur fram í rólegheitum og farið varlega í allar aðgerðir.
Á stuttum undirbúningsfundi sem fór fram í morgun var meðal annars farið yfir það hversu hættulegt er að síga niður í gljúfrið.