Gerð verður svokölluð hraðleit í Bleiksárgljúfri í klukkustund áður en hafist verður handa við að stífla og stýra rennsli árinnar í gljúfrinu. Nú klukkan níu hefst stuttur fundur með björgunarsveitarmönnum þar sem farið verður yfir aðgerðir dagsins og öryggisatriði.
Samkvæmt upplýsingum frá blaðamanni mbl.is eru hátt í fjörtíu björgunarsveitarmenn við Bleiksárgljúfur í Fljótshlíð. Aðgerðir eru í þann mun að hefjast en síðast var leitað að Ástu Stefánsdóttur, sem saknað hefur verið í rúmar þrjár vikur, í gljúfrinu fyrir viku.
Í vikunni hefur verið unnið að því að ljúka smíði á búnaði sem notaður verður í dag. Leitarmenn munu lýsa upp gilið og á hafa þeir m.a. fengið neðansjávarmyndavélar sem verður slakað ofan í hylinn við leitina, en þær verða notaðar til að byrja með áður en ákvörðun verður tekin um að senda kafara niður.
Björgunarsveitarmenn hafa unnið að því að byggja betur undir stór rör sem búið er að koma fyrir ofan í gljúfrinu, en þeim er ætlað að soga upp vatn sem verður veitt fram fyrir fossinn og á annað stað í gljúfrinu. Um er að ræða þrjú 12 metra löng og 50 cm breið rör. Einnig er verið að útbúa öruggari leiðir inn í gilið, t.d. að leggja planka, enda svæðið drullugt og sleipt.