Leit hafin í Bleiksárgljúfri

Leit er nú hafin á ný að Ástu Stefánsdóttir í Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð. Fyrstu klukkustundina er gert ráð fyrir svokallaðri flýtileit, eða hraðleit, en þá munu nokkrir björgunarsveitarmenn vaða upp Bleiksá í gljúfrinu og kanna hvort lík Ástu hafi skilað sér niður með ánni.

Að sögn blaðamanns mbl.is, sem er við Bleiksárgljúfur, hefur björgunarsveitarmönnum fjölgað töluvert á svæðinu síðastliðna klukkustund og eru um 60 björgunarsveitarmenn við og í gljúfrinu. 

Sveitunum fylgir mikill búnaður og eru til að mynda um tuttugu bílar á svæðinu. Þá eru komnir þrír kafarar sem munu ef vill kafa í gljúfrinu síðar í dag.

Búið er að setja upp stórt tjald við Bleiksárgljúfur og þar er einnig stjórnstöðvarbíll, en þaðan er aðgerðunum stýrt og haldið utan um öll samskipti við björgunarmenn. Um klukkan níu í morgun var fundur með björgunarsveitarmönnunum þar sem farið var yfir aðgerðir dagsins og öryggisatriði.

Sex björgunarsveitarmenn ganga nú inn í gljúfrið og upp með ánni. 

Frétt mbl.is: Leit að hefjast í Bleiksárgljúfri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert