Björgunarsveitarmenn hefjast handa við stífla og færa rennsli árinnar í Bleiksárgljúfri um klukkan fjögur í dag. Þetta er gert svo hægt sé að leita betur í hyljum undir fossinum. Flýtileit sem gerð var í ánni í morgun bar ekki árangur og undirbúa björgunarsveitarmenn stærri og umfangsmeiri aðgerð.
Hér, hér og hér má lesa um undirbúning aðgerða dagsins.
Þetta er ein umfangsmesta aðgerð sem liðsmenn Landsbjargar hafa tekið þátt í til þessa. Að sögn Svans Sævars Lárussonar, stjóranda leitarinnar, er gríðarleg vinna að koma búnaðinum fyrir inni í gljúfrinu.
Í morgun hófust björgunarsveitarmenn handa við að koma dælubúnaði fyrir í gilinu, auk þess þurfti að koma fyrir rafstöðvum og öðrum rafmagnsbúnaði svo dælurnar fái straum. Til stendur að dæla vatni upp úr hylnum þar sem rörin liggja og fram fyrir fossinn. Ljóst er að það mun taka nokkrar klukkustundir.
„Markmiðið með þessu öllu er að reyna að losna við fossinn til að geta leitað þar undir,“ sagði Svanur í samtali við mbl.is í gær. Fallhæð fossins er um það bil 30 metrar. „Þetta er eini staðurinn sem okkur hefur ekki tekist að leita,“ bætti hann við
Meðal annars þarf að koma þremur stórum rafstöðum fyrir og eru tólf dælur til staðar á svæðinu. Þær vega á bilinu 200 til 900 kíló en ekki er ljóst hvort þær verði allar notaðar í dag. Þrír kafarar eru einnig á vettvangi og munu hugsanlega taka þátt í aðgerðum síðar í dag.
Rúmlega 70 björgunarsveitarmenn eru á svæðinu en um 1000 björgunarsveitarmenn hafa komið að leitinni að Ástu Stefánsdóttur síðustu þrjár vikur.
Leitað er að Ástu Stefánsdóttur, 35 ára lögfræðingi, sem hefur verið saknað í þrjár vikur. Sambýliskona hennar, Pino De Los Angeles Becerra Bolanos, fannst látin í Bleiksárgljúfri þann 10. júní síðastliðinn.
Umferð að Bleiksárgljúfri er stjórnað við afleggjarann að gljúfrinu. Engum er hleypt inn á leitarsvæðið sem er nokkuð rúmt. Að sögn blaðamanns hafa ekki margir lagt leið sína að svæðinu í morgun.
Ljóst er að vel er staðið að undirbúningi björgunaraðgerðanna. Að sögn blaðamanns er mjög fagmannlega staðið að allri vinnu í tengslum við leitina í dag, undirbúningur fram í rólegheitum og farið varlega í allar aðgerðir. Áhersla er á að tryggja öryggi þeirra sem koma að leitinni.
Á stuttum undirbúningsfundi sem fór fram í morgun var meðal annars farið yfir það hversu hættulegt er að síga niður í gljúfrið og að hverju þarf að huga.
Stuttu fyrir klukkan 16 var búið að koma rafstöðunum fyrir í gilinu og unnið er við að koma þeim í gang. Um 80 manns frá öllum helstu björgunarsveitum landsins eru á staðnum.