Leit í Bleiksárgljúfri að Ástu Stefánsdóttur, 35 ára konu sem saknað hefur verið í þrjár vikur, er formlega lokið. „Það er ekkert meira sem við getum gert,“ sagði Svanur Sævar Lárusson, stjórnandi leitaraðgerðarinnar í Bleiksárgljúfri í gær.
Leitin að Ástu er ein umfangsmesta aðgerð sem liðsmenn Landsbjargar hafa tekið þátt í til þessa. Í myndasyrpu sem fylgir fréttinni má sjá myndir sem teknar voru í og við Bleiksárgljúfur í gær.
Svanur segir að þrátt fyrir að leitin hafi ekki skilað árangri hafi aðgerðin sem slík gengið vel. „Við vorum með félaga úr fimmtán björgunarsveitum sem unnu allir sem einn þannig að aðgerðin sem slík gekk alveg ótrúlega vel,“ segir Svanur.
Við leitina í gær kom í ljós hellir undir fossinum sem talið er að sé að minnsta kosti 10 metra langur og að allt vatnið í fossinum fari í gegnum hellinn.
Svanur segir að björgunarmenn hafi ekki getað sigið niður fossinn sjálfan fyrr en búið hafi verið að minnka vatnsrennslið í honum. „Þá var hægt að síga niður í miðjan fossinn og þá komu í ljós þessi hrikalegu göng,“ segir Svanur.
„Ef hún hefur farið í fossinn hefur hún farið í göngin, við teljum það nánast öruggt,“ segir Svanur. Hann segir að lítið sé vitað um göngin, sem geti verið um metri í þvermál. Björgunarsveitarmaðurinn sem seig niður fossinn taldi sig sjá 10 metra inn göngin.
„Hann fylltist svo bara skelfingu þegar hann áttaði sig á því að hann stóð ekki á einhverri syllu heldur á gangamunna þarna. Tveir sandpokar sem við höfðum notað í stíflugerðina fóru niður fossinn. Þeir hafa ekkert komið í ljós, en sá sem seig er harður á því að allt sem fari í fossinn fari í gegnum þessi göng,“ segir Svanur.
Svanur telur engar líkur á því að lík Ástu sé að finna neðar í gljúfrinu. „Það er búið að leita alveg ofsalega vel og þeir gátu í fyrsta sinn í gær kafað undir fossinn. Við reyndum að slaka þremur GoPro-myndavélum þarna niður en þær fóru bara þarna niður og liggja undir fossinum þar sem við höfum ekki getað náð þeim. Það eru ótrúlegir kraftar í þessu vatni, sem gerir leitina svakalega erfiða,“ segir Svanur.
Hann segir að erfitt sé að útskýra svæðið fyrir fólki sem hafi ekki kynnst því af eigin raun. Hann biðlar til fólks að fara alls ekki inn í gljúfrið. „Þetta lítur vissulega út fyrir að vera gönguslóði núna, eftir alla umferð okkar um svæðið, en það er langur vegur frá. Það á alls ekki að fara þarna inn.“
Þótt leitinni sé nú formlega lokið verður áfram fylgst með ánni. Björgunarsveitin er með net neðst í ánni sem áfram verður eftirlit með. „Lögreglan hefur nú að mestu tekið utan um það verkefni. En það er ekkert sem er fyrirhugað af okkar hálfu, köfun eða annað slíkt,“ segir Svanur.