„Við erum 40 sem tökum þátt og við erum valin allstaðar að úr heiminum, en ég er fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt,“ segir Aníta M. Aradóttir, en í næsta mánuði heldur hún til Mongólíu þar sem hún mun taka þátt kappreiðinni Mongol Derby sem er sögð vera lengsta, erfiðasta og jafnframt hættulegasta kappreið heims.
Að sögn Anítu er sótt um að taka þátt í keppninni á heimasíðu hennar með því að senda inn umsókn ásamt ferliskrá og myndum. Eftir það eru 40 knapar valdir. „Ég sótti upphaflega um að taka þátt í keppninni árið 2015, en það losnuðu skyndilega pláss í keppnina núna í ár þannig að ég sló til. Ég hafði sótt um að taka þátt í keppninni 2015 í febrúar, en var boðið að taka þátt núna í sumar í mars. Ég fæ því mun styttri undirbúningstíma en hinir knaparnir, en þeir voru valdir í október á seinasta ári. Það er samt bara spennandi.“
Í reiðinni, sem er 1000 km löng, mun Aníta ríða mongólskum villihestum en skipt verður um hest á 40 km fresti svo að hestarnir þreytist ekki. „Hestarnir sem verða þarna eru mongólskir villihestar og eru mjög lítið tamdir. Þeir eru samt skyldir íslenska hestinum og eru bæði litlir og sterkir. Ég græði á því þar sem ég er aðeins vanari stærðinni á þeim en margir aðrir keppendur sem eru stórreiðarmenn,“ segir Aníta, en reiðin tekur 10 daga.
Mongol Derby er árlegur viðburður sem haldin hefur verið síðustu sex ár. Að sögn Anítu fylgir gífurlegur kostnaður því að taka þátt en vel gangi að fjármagna ferðina. Bæði þarf Aníta að greiða keppnisgjald og ferðagjöld.
Í Mongol Derby er skylda að safna hvatningarstyrkum og mun Aníta safna fyrir tveimur góðgerðarfélögum. „Allur ágóði sem ég safna fer til barnaspítalasjóðs Hringsins. Einnig mun ég safna pening til styrktar góðgerðarfélagsins Cool Earth sem vinnur að verndun regnskóga Amazon. Allir sem taka þátt þurfa að safna fyrir Cool Earth en svo þarf að velja annað góðgerðarfélag sjálf,“ segir Aníta og bætir við að söfnunin sé ákveðin hvatning.
„Samkvæmt heimsmetabók Guiness er þessi reið erfiðasta, lengsta og hættulegasta keppnisreið í heimi. Því vildi ég velja góðgerðarmál sem hvetur mig áfram og ég veit að barnaspítalasjóður Hringsins mun gera það Kannski mun mér líða hörmulega á einhverjum tímapunkti en þá getur söfnunin minnt mig á hvað ég á ekki bágt miðað við marga aðra. “
Aníta verður að ná ákveðnu lágmarki í söfnuninni og verður hún að hafa náð því mánuði eftir að keppninni lýkur.
Aníta er 32 ára gamall Reykvíkingur. Hún er lærður tamningamaður frá Háskólanum á Hólum, en hún hefur starfað sem tamningamaður í 16 ár. Jafnframt er hún útskrifaður reiðkennari. Aníta hefur starfað mikið erlendis, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, bæði við að þjálfa íslenska hesta og sýna þá á hestasýningum. Að sögn Anítu hófst áhugi hennar á hestaíþróttinni þegar hún var barn.
„Ég fékk alveg svakalega hestadellu þegar ég var lítil stelpa. Þetta ætti eiginlega frekar að vera kallað þráhyggja heldur en della. Ég var sí hneggjandi og hlaupandi um eins og hestur og herbergið mitt var allt út í hestum. Ég eiginlega talaði og hugsaði ekki um annað en hesta. Þetta var reyndar svolítið sérstakt að því leyti að enginn úr fjölskyldunni minni stundaði hestaíþróttina, heldur var þetta eitthvað sem ég kom mér inn í sjálf,“ segir Aníta.
Aðspurð um ástæður þess að hún ákvað að taka þátt í þessari löngu og ströngu reið segir Aníta að hún hafi viljað prófa að að gera eitthvað nýtt. „Ég er svolítill spennufíkill og er með mikla ævintýraþrá. Stundum hefur maður líka gott að því að skora á sjálfan sig og fara út fyrir þægindarammann. Það gerist ekkert ef maður heldur sig bara innan hans.“
Óhætt er að segja að kappreiðin verði mikil lífsreynsla fyrir Anítu. „Ég hlakka rosalega til en þetta verður mikið ævintýri sem ég veit að ég mun aldrei gleyma.“
Hægt er að heita á Anítu með fjárframlögum með því að leggja inn á reikning 515- 26- 253774 til að styrkja Barnaspítalasjóð Hringsins og 515- 26- 253778 til að styrkja Cool Earth.
Sama kennitala er á báðum reikningunum en hún er : 200282-3619
Hér er hægt að fræðast um Anítu og keppnina.