Óvenjuleg lægðasyrpa yfirvofandi

Líkur eru á því að þriðja lægð vikunnar verði svo …
Líkur eru á því að þriðja lægð vikunnar verði svo djúp að met falli og loftþrýstingur verði lægri en áður hefur mælst í júlí. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er fordæmalítil lægðasyrpa fyrir júlí og alveg nægur vindur til að geta valdið vandræðum. Þetta þætti ekki sérstakt veður í október en við verðum að taka mið af því hver árstíminn er,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um veðrið framundan. Mesti hvellurinn verður framan af viku, en áhrifanna mun gæta framá næstu helgi.

Þrjár lægðir í röð munu herja á landið fram á miðvikudag, með mikilli úrkomu víða. Vindstyrkur gæti náð því að skilgreinast stormur og í kjölfarið má búast við því að kalt loft komi yfir landið þegar nær dregur næstu helgi og hugsanlega snjói í fjöll. Vindstyrkurinn og dýptin á lægðunum er það óvenjulega, og svo gæti farið að met verði slegið með lægsta loftþrýstingi sem mælst hefur í júlí.

Ekki daglegur viðburður að fá storm í júlí

Aðspurður hvað valdi þessu veðri nú og hvaðan það kemur segir Einar ekki auðvelt að átta sig á því hvað er í raun og veru að gerast. „Það er ekki óvenjulegt að sjá eitthvað svona utan hásumars, en yfirleitt á tímabilinu frá Jónsmessu og framyfir Verslunarmannahelgi þá eru rólegheit og lægðirnar á sveimi við landið tiltölulega grunnar, miðað við það sem við sjáum um haust og vetur.“

Það sem er að gerast núna er að heitt og rakaþrungið loft í suðri og suðvestri virðist ná saman við kulda norðvestan af Grænlandi, svo úr verður samspil loftstrauma í grennd við landið sem nær að spóla upp djúpar lægðir.

Sú fyrsta sem ríður yfir í dag er jafnframt sú minnsta og „venjulegust“ ef hægt er að orða það þannig, að sögn Einars, með strekkingsvindi og rigningu. „Næsta er á ferðinni á morgun og hún verður dýpri. Þá hvessir meir, sérstaklega um suðvestan- og vestanvert landið um og eftir hádegi á morgun og gæti jafnvel gert upp undir stormstyrk. Og það er enginn daglegur viðburður að fá storm í júlímánuði,“ segir Einar.

Allra síst storm af þeirri gerð sem nú er í vændum, þ.e. suðaustan storm undan skilum. Útlit er fyrir snarpar kviður, 35 m/s og yfir t.d. við Hafnarfjallið og á norðanverðu Snæfellsnesi.

Sú þriðja kemur askvaðandi og gleypir hinar tvær

Önnur lægðin ætti að ganga hratt yfir á þriðjudag, en strax í kjölfarið á miðvikudag kemur sú þriðja askvaðandi með suðurströndinni og með henni mikil bleyta um land allt, að sögn Einars. „Hún gleypir hinar tvær lægðirnar og verður að einni djúpri við Langanes seinni partinn á miðvikudag og gerir að verkum að það hvessir og verður norðan- og norðvestanstæður, aftur með styrk sem nálgast hvassviðri og jafnvel storm.“

Þetta mun standa fram á aðfaranótt fimmtudags með stórrigningu um norðvestan- og norðanvert landið. Þegar yfir lýkur verður því enginn landshluti ósnertur af veðrinu sem framundan er. Líklega verður það þó skást á suðaustur- og austurlandi, þar sem það verður einkum á formi rigningartíðar en vindur verður minni.

Einhverjar líkur eru á því að þriðja lægðin verði svo djúp að met falli og loftþrýstingur verði lægri en áður hefur mælst í júlí. Fram kemur á Hungurdiskum, veðurbloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings, að til þessa hefur þrýstingur í júli lægstur verið 972,3 hPa. Það met var sett fyrir aðeins tveimur árum, 22. júlí 2012.

Frá 1873 hefur loftþrýstingur ekki nema 13 sinnum mælst lægri en 980 hPa, að meðaltali á um 10 ára fresti. Tíðnin virðist þó verða örari, því á síðustu 20 árum hefur það 4 sinnum gerst.

Fólk á ferðinni úti á nesjum, inn til lands og upp til fjalla

Þegar líður á vikuna er meiri óvissa í spánum, en að sögn Einars lúrir fjórða lægðin austan við landið og hún er líklegri til þess að draga til okkar kaldara loft um helgina. „Þá verður norðanátt búin að standa í dálítinn tíma, nokkra daga, og auðvitað endar það með því að það kólnar svo það gæti snjóað í fjöll fyrir norðan um helgina,“ segir Einar.

Þótt veðrið þætti ekki til tíðinda í október er staðan önnur nú vegna þess að mun fleiri eru á ferðinni á þessum tíma árs, bæði innlendir og erlendir ferðamenn. „Fólk er á ferðinni út um allt, það er búið að opna flesta fjallvegi og fólk er á þvælingi jafnt úti á annesjum sem inn til landsins. Fólk er gangandi í öræfum og á jöklum, fólk er hjólandi og margir gista í tjöldum. Þetta er alveg nægur vindur til þess að geta valdið vandræðum,“ segir Einar.

Rétt er því að ítreka að þeir sem hyggja á ferðalög fylgist grannt með veðri og færð, t.d. á vef Vegagerðarinnar. Til fjalla þarf að huga vel að vatnavöxtum, enda von á mikilli úrkomu og enn er snjór ekki fullleystur. Þeir sem eru með tjaldvagna, hestakerrur og annað aftan í bílum þurfa að gæta sín á kviðum s.s. undir Hafnarfjalli og á Snæfellsnesi. Loks ættu þeir sem hyggja á tjaldferðalög um næstu helgi, t.d. vegna Pollamóts á Akureyri, að hafa í huga að þótt draga ætti úr vindi um næstu helgi gæti kólnað talsvert í lofti.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vekur einnig athygli á veðrinu og biður fólk um að fara varlega á ferðum sínum og sömuleiðis að ganga vel frá öllum lausamunum utandyra.

Sjá einnig veðurvef mbl.is

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Gínur verslana verða kannski í sólskinsskapi í vikunni en réttast …
Gínur verslana verða kannski í sólskinsskapi í vikunni en réttast fyrir aðra að skilja sumarklæðnaðinn eftir inni í skáp. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert