Erlendir sjálfboðaliðar fengu húsaskjól

Axel Ómarsson er framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna 2014.
Axel Ómarsson er framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna 2014. Eggert Jóhannesson

Erlendir sjálfboðaliðar eru þeir sem hafa farið verst út úr veðrinu á landsmóti hestamanna. Mótið hófst í blíðskaparveðri í gær, en í morgun vöknuðu hátt í 40 erlendir sjálfboðaliðar í ansi blautum kúlutjöldum. Sveitarstjórnin á Hellu brást skjótt við og skaut yfir þau skjólshúsi í skólastofum.

„Við fáum mikið af sjálfboðaliðum, um 70 í allt, og ég held að um 50 þeirra séu erlendir. Þau koma víða að og mörg af þeim bara búin undir sumarveður í litlum kúlutjöldum, þannig að þau blotnuðu ansi mikið, en því var reddað snarlega,“ segir Axel Ómarsson, framkvæmdastjóri landsmótsins.

Hestamenn harðir af sér

Eftir blíðuna á opnunardegi mótsins í gær skall á með rigningu og hvassviðri í nótt og morgun. Sýningar hófust þó á réttum tíma og hefur dagskrá haldist og keppnin gengið vel. Forkeppni í B-flokki gæðinga fór fram í morgun auk kynbótadóma í flokki 6 vetra hryssa. Nú hefur stytt upp og keppni í barnaflokki að hefjast.

Veðurspáin næstu daga er ekki kræsileg, en þó er útlit fyrir að það versta verði gengið yfir áður en sjálfur hápunktur mótsins hefst á fimmtudag. Búast má við að fjölmennast verði á Gaddstaðaflötum um næstu helgi.

Axel segir að hestamenn séu harðir af sér og vanir að keppa í allskonar veðrum. „Þetta er bara forkeppni núna og hér á svæðinu eru fyrst og fremst knapar, þeirra aðstoðarmenn og fólk í kringum þá auk sjálfboðaliða og einhverra gesta. Sjálft mótið hefst á fimmtudag og veðurspár segja okkur að það versta standi yfir fram á miðvikudag svo við vonum það besta.“

Stórir bílar og þungar kerrur

Engu að síður hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar vegna veðurspárinnar næstu daga og tjaldbúar á svæðinu verið hvattir til að ganga vel frá öllu og fylgjast með veðurfréttum. 

„Aðalatriðið hjá okkur er að tryggja þau mannvirki sem við erum með,“ segir Axel. „Ég fór í gegnum tjöldin áðan og það var lítið til að hafa áhyggjur af, einhver fortjöld sem geta hreyfst til. Fólkið sem er hérna er almennt vel búið, með mikið af þungum bílum og kerrum. Það væri verra ef fólk væri með léttari búnað, en við biðjum fólk að gera ráðstafanir, leggja bílum fyrir tjöld ef það skyldi koma vitlaust veður.

Svo fylgjumst við vel með og erum með plön. Þannig að við búum okkur undir verstu veður en vonum það besta.“

Náið verður fylgst með úrslitum og öðrum fréttum landsmótsins 2014 á hestavef mbl.is

Sjá einnig veðurvef mbl.is

Áhorfendur fylgdust með B-flokki gæðinga í morgun, vel klæddir í …
Áhorfendur fylgdust með B-flokki gæðinga í morgun, vel klæddir í pollagöllum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert