„Fríverslunarsamningurinn við Kína er gott mál. Hins vegar þarf að fylgjast vel með því að vöruverð lækki og að ágóðinn fari ekki bara beint í vasa kaupmanna, eins og svo oft vill verða,“ segir Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.
Eins og greint hefur verið frá á mbl.is tekur fríverslunarsamningurinn formlega gildi í dag en hann var undirritaður í apríl á síðasta ári og staðfestur á Alþingi í vetur. Viðræður um samninginn hófust formlega á fyrri hluta árs 2007 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og var haldið áfram í tíð næstu ríkisstjórna. Hins vegar voru viðræðurnar settar á ís einhliða af hálfu Kínverja árið 2009 en teknar upp á ný 2012.
Frétt mbl.is: Fríverslunarsamningur við Kína tekur gildi