Furða sig á aðgerðaleysi lögreglu

Unga fólkið sækir sér efni á ólögmætan hátt.
Unga fólkið sækir sér efni á ólögmætan hátt. Kristinn Ingvarsson

Rýnihópur mennta- og menningarmálaráðherra um greiningu á hindrunum fyrir streymiþjónustu furðar sig á aðgerðaleysi lögreglu þegar kemur að ólöglegu niðurhali. Húsleitir og yfirheyrslur hafi farið fram vegna þess á árinu 2010 og leitt til játninga en án þess þó að ákærur hafi verið gefnar út.

Skýrsla rýnihópsins var gerð opinber í gær. Í henni segir að það valdi áhyggjum hversu hátt hlutfall yngri kynslóðarinnar nýti sér leiðir þar sem höfundur eða rétthafi efnis fái ekki greitt fyrir. Gerð var könnun fyrir rýnihópinn og kom fram að 86% í aldursflokknum 18-24 ára sæki sér kvikmyndir ólöglega og 80% sjónvarpsefni á sama hátt.

Rýnihópurinn telur mikilvægt að úrræði höfunda- og réttarfarslaga þjóni rétthöfum sé á þann hátt að unnt verði að bregðast við yfirstandandi höfundaréttarbrotum með skilvirkum hætti. „Þess má geta að samtök höfundaréttarhafa hér á landi lögðu fram kæru hjá lögreglu í febrúar 2012 á hendur þeim einstaklingi sem stofnaði og rekur skráardeilisíðuna deildu.net án þess að vitað sé til þess að lögregla hafi aðhafst nokkuð í málinu.“

Þá segir rýnihópurinn að það verði að teljast „mjög sérstakt“ að ekki hafi verið gefnar út ákærur þegar lögregla hafði undir höndum játningar einstaklinga eftir yfirheyrslur og húsleitir á árinu 2010.

Frétt mbl.is: Gott aðgengi gegn ólögmætri notkun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert