Lægðirnar hringsóla yfir landinu

Væst gæti um ferðamenn hér á landi í vikunni.
Væst gæti um ferðamenn hér á landi í vikunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er ekkert aftakaveður en það er óvenjulegt að fá svona veður um sumar. Það er mikilvægt að koma upplýsingum til þeirra sem eru á ferðinni, þeir sem eru með húsaskjól eru í góðu lagi,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.

Næstu daga munu lægðir hringsóla yfir landinu og fylgir þeim nokkur úrkoma. Klukkan níu í morgun voru 5 til 13 m/sek og rigning en úrkomulítið fyrir norðan og austan. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast á Austurlandi.

„Lægðin er að koma að vestan að landinu. Von er á tveimur úrkomubökkum og er sá fyrri á leiðinni niður yfir vestanvert landið. Sá seinni kemur með lægðamiðjunni og hvessir nokkuð með henni,“ segir Einar.

Vindstrengurinn verður seinna á ferðinni en ætlað var en honum fylgir allshvass og hvass vindur og má því gera ráð fyrir vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesinu til klukkan sex í dag, einnig á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.

„Þetta lægðakraðak sem kringum okkur er verður á hringsóli yfir landinu næstu tvo dagana. Ekki er gott að segja hversu snemma norðanáttin nær inn á landið. Það er margt sem bendir til þess að vindur snúist í norðaustanátt á Vestfjörðum í nótt eða snemma í fyrramálið og því fylgi allhvass vindur um norðvestanvert landið, til að mynda á Húnaflóa og á Breiðafirði,“ segir Einar.

Inn í þetta ganga enn fleiri lægðir með meiri vætu og verða þær á hringsóli yfir landinu alveg fram á helgi. Norðanáttin nær smám saman til alls landsins, nema austast, og er það helst á Austurlandi sem hvessir síðar og rignir líklega minnst. Austfirðingar sleppa þó ekki alveg, þar má gera ráð fyrir úrhelli og hvassviðri.

Veður næsta sólarhringinn

Næsta sólarhringinn mun ganga í sunnan 10 til 18 metra á sekúndu, fyrst suðvestanlands. Úrkomulítið verður á Norðausturlandi, annars rigning og mikil úrkoma á sunnanverðu landinu síðdegis. Hiti verður 10 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands. Hvöss suðaustanátt suðaustanlands og á Austfjörðum um tíma í kvöld og nótt. Suðlæg eða breytileg átt,  8-13 m/sek  á morgun, en norðvestan 10-18 m/sek vestantil, hvassast við ströndina. Víða rigning og heldur kólnandi veður.

Á fimmtudag:
Norðlæg átt, víða 8-15 m/s og rigning, en mun hægari vindur og stöku skúrir SA-til á landinu. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast SA-lands. 

Á föstudag:
Norðan og norðaustan 8-15 m/s, hvassast V-til. Súld eða rigning, en skýjað með köflum og úrkomulítið SV-lands. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á SV-landi. 

Á laugardag og sunnudag:
Ákveðin norðanátt með rigningu, en yfirleitt þurrt S-lands. Hiti breytist lítið. 

Á mánudag:
Minnkandi norðanátt og sums staðar skúrir, en rigning NV-lands.

Sjá einnig veðurvef mbl.is

Frétt mbl.is: Veðrið bæði varasamt og hrífandi

Frétt mbl.is: Óvenjuleg lægðasyrpa yfirvofandi

Frétt mbl.is: Sjálfboðaliðar fengu húsaskjól

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert